12.02.1943
Sameinað þing: 25. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í D-deild Alþingistíðinda. (3567)

135. mál, launabætur embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. — Í þáltill., sem fyrir liggur á þskj. 389, er svo ráð fyrir gert, að borguð sé uppbót m.a. á skrifstofufé opinberra starfsmanna. Nú er það svo, að þannig var þetta eftir þál., sem samþ. var í sumar, og þannig hefur þetta oft verið framkvæmt. Það er nú svo, að verulegur hluti af þessu skrifstofufé gengur til þess að launa starfsmenn, sem eru í þjónustu hlutaðeigandi embættismanna. Mér er kunnugt um það, að hjá einum slíkum starfsmanni, sem greiðir verulegar fjárhæðir í laun af skrifstofufé, hafa starfsmenn ekki fengið tilsvarandi uppbót á laun sín.

Ég vildi nú leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh., hvort hann liti ekki svo á, að um leið og samþ. yrðu þessar uppbætur á skrifstofuféð, sé til þess ætlazt, að þeir starfsmenn hlutaðeigandi embættismanna fái tilsvarandi uppbætur, sem laun sín taka af þessum lið.

Það var eiginlega ekki annað, sem ég ætlaði mér að segja í sambandi við þessa þáltill. En ég get þó ekki varizt því að láta í ljós undrun mína á þeim umr., sem fram hafa farið hér, og því, sem fram hefur komið hjá hv. þm. Barð. og hv. þm. V.-Húnv. Mér þykir undarlegt, að aths. þeirra skuli koma fram einmitt nú og fyrst nú. Það er sem sé alkunnugt, að hv. fjvn. hefur í frv. sínu gert ráð fyrir, að verðlagsuppbót þessi yrði greidd til ársloka. Fjárl. eru nú búin að fara gegnum 2. umr. og þegar komin til 3. umr., og hvorugur þessara tveggja hv. þm. eða nokkur annar hv. þm. hefur hreyft aths. við það. Í raun og veru er ríkisstj. ekkert að gera annað hér en að fá staðfestingu á því, sem búið er að gera af fjvn. og enginn hv. þm. hefur gert aths. við í sambandi við fjárl. Mér sýnist því, að umr. um þetta mál heyri frekar undir umr. um fjárl. heldur en þessa þáltill. Að vísu má svo fara, að þessi þáltill. verði afgr. á undan fjárl., en það hefur horft svo hingað til, að þessi þáltill. yrði afgr. á eftir fjárl. Og í tilefni af ræðu hv. þm. Barð. get ég ekki varizt því að segja, að mér þykir það dálitið undarleg yfirlýsing, sem fram kom hjá honum, að hér hljóti að standa fyrir dyrum stórfelldar launadeilur nú á komandi vori. Það eru ekki sérstaklega miklar líkur fyrir því, að verkalýðsfélögin muni hefja þær deilur. Mér skilst því, að þetta sé yfirlýsing frá hv. þm. — e.t.v. flokki hans, ég veit það ekki — um það, að atvinnurekendur muni segja upp samningum í vor og hefja herferð til launalækkunar. Það er náttúrlega, ef svo er, gott og gagnlegt að fá þessa yfirlýsingu. Hún verður ugglaust til þess, að verkalýðsfélögin munu standa betur á verði og verða viðbúnari þeirri árás, sem boðuð er með svona góðum fyrirvara.

En mér finnst samþ. þessarar þáltill. sjálfsagt mál. Það voru nær allir hv. þm. sammála um það í sumar, að launakjör embættismanna og opinberra starfsmanna væru þannig, að það yrði að gefa þeim einhverjar uppbætur. Það voru allir sammála um það þá, að það þyrfti að endurskoða launalögin og sú endurskoðun þyrfti að ganga í þá átt að veita þessum starfsmönnum kjarabætur. Þessi endurskoðun er enn ekki framkvæmd, og það eru ekki líkur til, að hún verði framkvæmd á næstu dögum. Og meðan svo er, er sjálfsagt og eðlilegt, að þessar bráðabirgðauppbætur standi. Þær verða fyrst eðlilega afnumdar, þegar búið er að endurskoða launal. og koma þeim í það horf, að opinberir starfsmenn geti lifað af þeim launum, sem þeim eru ætluð.