12.02.1943
Sameinað þing: 25. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í D-deild Alþingistíðinda. (3568)

135. mál, launabætur embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. — Ræður tveggja hv. þm., sem talað hafa um þessa þál.till., hafa gefið mér tilefni til þess að láta hæstv. ríkisstj. vita, að þessir tveir hv. þm. mæla a. m. k. ekki fyrir hönd alls Alþ.

Ég get tekið undir með hv. síðasta ræðumanni (SigfS) um það, að mér finnst sjálfsagt og eðlilegt, að slík till., sem hér liggur fyrir, nái fram að ganga. Og það hefur verið reiknað með því af fulltrúum hér á Alþ., sem fjallað hafa um fjárlagafrv., að þessi ákvæði yrðu samþ. fyrir þetta ár, og það er eðlilegt, þegar ríkisstj, hefur gefið yfirlýsingu um það, að hún muni, ef hún situr að völdum, þegar haustþingið kemur saman, leggja þá fyrir Alþ. frv. að nýjum launal. þegar þess má vænta, er næsta eðlilegt og sjálfsagt, að til þess tíma gildi þau ákvæði, sem allt Alþ. var sammála um nú fyrir skömmu að hrinda í framkvæmd um laun opinberra starfsmanna. Þar að auki finnst mér engin tákn eða stórmerki vera á lofti enn þá, er bendi í þá átt, að það ætti að byrja dýrtíðarráðstafanirnar með því að skera niður laun hjá launamönnum. Og þar er ég kominn að því atriði, sem ég vildi gera aths. við út af ræðu hv. þm. V.-Húnv. og ræðu hv. þm. Barð.

Það er í raun og veru gömul kenning hér meðal fjölda manna, þegar rætt er um dýrtíðarmál, ef eigi að gera einhverjar dýrtíðarráðstafanir, þá verði þær að koma á bak allra þegna þjóðfélagsins. Það er eins og menn gangi út frá því, að öll bök þegna þjóðfélagsins séu jafnbreið og réttlátt sé að leggja á þau jafnar byrðar. Þeir orða þetta svo báðir þessir hv. þm., að það þurfi allir að taka á sín bök einhverjar byrðar, einhvern þunga, ef gera eigi skynsamlegar dýrtíðarráðstafanir. Eins og sakir standa nú, verð ég að mótmæla því, að til þess sé nokkur ástæða. Mér virðist engin ástæða til þess, að þær stéttir þjóðfélagsins, sem alltaf búa við skarðan hlut, alltaf eiga örðugast uppdráttar, sem eru yfirleitt launastéttirnar, þurfi að taka á sig byrðar, þó að vegna dýrtíðarráðstafana verði að leggja byrðar á bök einhverra landsmanna. Það góðæri, sem ríkt hefur hér á landi á undanförnum árum, hefur skapað meiri hagnað og meiri auð hjá sumum stéttum þjóðfélagsins heldur en nokkurn tíma fyrr hefur þekkzt í sögu landsins. Og það verður áreiðanlega að líta á það, þegar gerðar verða dýrtíðarráðstafanir, hvort ekki séu til bök í þjóðfélaginu, sem þola þessar byrðar svo fullnægjandi sé, þó að ekki þurfi að leggja þær á öll bök þjóðfélagsþegnanna. Það munu ekki allir vera á einu máli um það hér á Alþ., að leggja þurfi byrðar vegna dýrtíðarráðstafana á bök þeirra, sem minnst burðarmagnið hafa, heldur hinna, sem mestar byrðar geta borið.

Hv. þm. Barð. minntist á það, að það mundu standa fyrir dyrum deilur milli atvinnurekenda og verkamanna á þessu ári. Ég vil taka undir með hv. 8. þm. Reykv. (SigfS), að mér er ekki kunnugt um það, að þær deilur standi til af hálfu verkamanna yfirleitt. Ég veit ekki betur en fjölmennasta stéttarfélagið hér á landi, sem er hér í Rvík, Dagsbrún, hafi ekki sagt upp samningum sínum, og ég veit ekki til þess, að atvinnurekendur hafi heldur sagt þeim upp. Vera má að vísu, að á öllum tímum árs komi til einhverra átaka. Slíkt er ekki óeðlilegt. En ég hafði ekki búizt við því, að það mundi verða gerð nein allsherjarherferð á hendur launastéttunum nú á miðju þessu ári.

Ég vil svo verða við tilmælum hæstv. forseta um að stytta mál mitt. En mér þótti rétt að undirstrika þessi orð að gefnu tilefni af því, sem fram hefur komið í ræðum hv. þm.

Ég sé svo ekki ástæðu til, þó að nokkurt tilefni væri til, að ræða um það, sem var aðalkjarni ræðu hv. þm. V.-Húnv., ummæli manna um uppbótagreiðslur til bænda og búaliðs af opinberum sjóðum. Það getur verið, að síðar hér á Alþ. gefist tilefni til þess, en ég vil ekki draga það inn í þessar umr. á þessu stigi málsins.