12.02.1943
Sameinað þing: 25. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í D-deild Alþingistíðinda. (3569)

135. mál, launabætur embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. — Ég álit, að þessi þáltill., sem hæstv. ríkisstj. hefur hér lagt fyrir hæstv. Alþ., sé svo sjálfsögð, þó að hún hefði aldrei verið lögð fyrir, þá hefði verið farið eftir þeirri stefnu, sem ákvæði hennar eru um. Því að í fjárl., sem bráðum verður gengið frá, er gengið út frá þessari heimild til þess að greiða þessa grunnkaupshækkun, sem þarna felst i. Ég veit ekki betur en öll hv. fjvn. sé samþykk því að halda þeirri grunnkaupshækkun áfram, sem ríkisstj. hér gerir ráð fyrir og greidd hefur verið. Og fé er ætlað til þess á fjárl. að framkvæma það, sem þáltill. felur í sér. Þál., er þessi till. er samþ., verður enn frekari staðfesting á því, hvað þingið telur sjálfsagt að greiða í uppbætur, sem þarna er farið fram á.

Það er hins vegar mjög eftirtektarvert, að einn hv. þm. skuli finna ástæðu til þess við þessar umr. að fara að koma með hótanir til þjóðarinnar um, að nokkrir stórgróðamenn ætti að hefja herferð á þessu ári til þess að reyna að ræna verkalýðsstéttina þeim fríðindum, sem hún hefur aflað sér. Gott væri að vita, hvort hv. þm. Barð. talaði hér í nafni Sjálfstfl. um það, að atvinnurekendur muni láta koma til stórfelldra átaka til þess að lækka grunnkaup verkamanna eða hvort það er einhver einkablessun, sem hann ætlar að leiða yfir Barðstrendinga í samræmi við loforð, sem hann gaf þeim fyrir kosningarnar um að liðka til fyrir þeim á ýmsan hátt. Það væri fróðlegt að vita, hvort hann talar hér sem atvinnurekandi og lætur í ljós hug þann, sem nokkrir stórgróðamenn bera til verkalýðs þessa lands, eða hvort hann talar hér í nafni flokks síns. Hann hefur misskilið hæstv. ríkisstjórn hrapallega, ef hann hefur skilið ræðu hæstv. ráðh. um áramótin á þann veg, um samfylkingu þjóðarinnar, að það beri að rýra lífskjör fátækustu mannanna í landinu, til þess að stórgróðamenn geti safnað sem mestum auði. Mér virðist þessi ummæli, sem hv. þm. Barð. hafði í ræðu sinni um þetta atriði, vera stríðsyfirlýsing hjá þeim mönnum, sem með alls konar móti hafa sölsað undir sig of fjár síðustu ár og nú ætla að nota það, ef þeir halda, að atvinnuleysi og neyð gefi þeim tækifæri til þess, til að rýra kost þess hluta þjóðarinnar, sem við þrengstan kost á að búa, en hefur skapað stórgróðamönnunum þennan auð, sem þeir nú búa við. Yfirlýsingar eins og þær, sem hér komu fram áðan frá hv. þm. Barð., líta út eins og nokkurs konar stríðsyfirlýsingar einræðisherranna í atvinnulífi okkar. Og ef vilji fleiri hv. þm. en þessa eina er á bak við þessar yfirlýsingar, þá væri gott að vita, við hverju má búst af hendi þeirra manna. Því að ég þykist vita, ef þeir ætla að „praktísera“ það, sem þeir skilja við sameiningu þjóðarinnar, á þann hátt að neyta aðstöðu sinnar til þess að herja á vinnandi stéttirnar í landinu, þá verði tekið á móti. Og þá skal verða tekið á móti, ef þessir stórgróðamenn ætla að fara að setja hnífinn á hálsinn á alþýðunni með því að stöðva atvinnufyrirtækin til þess að kúga fram sér til handa enn meiri gróða en þeir hafa haft þrjú undanfarin ár, og sýnist mönnum hann þó hafa verið nægilega mikill. Ef á að fara að vekja umr. um þessi mál hér í þinginu, þá kemur vafalaust þar til með að kastast í kekki, og er bezt fyrir menn, sem koma fram með þess háttar stríðsyfirlýsingar, að spara sér þau orð, að þjóðin þurfi að standa saman um það, sem gera þurfi.