12.02.1943
Sameinað þing: 25. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í D-deild Alþingistíðinda. (3570)

135. mál, launabætur embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins

Skúli Guðmundsson:

Mér skildist helzt á hæstv. fjmrh., að hann teldi undarlegt, ef minnzt væri á dýrtíðarmálin í sambandi við þessa till. Hann spurði, hvort þetta ætti að snúast upp í umr. um dýrtíðarmálin, eins og það sé þeim óviðkomandi, hvort ríkið á að greiða nokkrar millj. kr. í aukauppbót til opinberra starfsmanna eða önnur fyrirtæki þurfa að gera slíkt hið sama eða eigi. Ég veit ekki, hvaða „kínalífselixír“ það er, sem hæstv. stj. gengur með til lækningar í dýrtíðarmálunum. Það er að sjálfsögðu gott, ef hægt er að lækna dýrtíðarmeinin, án þess að nokkur maður þurfi að sjá af einum eyri af tekjum sínum í sambandi við það, fyrir það fyrsta til næstu áramóta og sennilega eitthvað lengur.

Hæstv. ráðh. lýsti yfir því, að hann hefði skýrt frá því í Ed. fyrir nokkrum dögum, að innan skamms tíma mundi stj. leggja fram till. sínar um dýrtíðarmálin. En þá vil ég spyrja: Hvað liggur þessu máli á nú meira en dýrtíðarráðstöfunum? Í dag var verið að afgreiða frá þinginu l. um þingfrestun, og eftir þeirri afgr. virðist mér útlit fyrir, að þessu aukaþingi sé ætlað að sitja eitthvað lengur. Mér virðist vaka fyrir hæstv. stj. að fá einhverja lausn á dýrtíðarmálunum, áður en þessu aukaþingi verður slitið. Ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Liggur þessu máli nokkuð meira á en væntanlegum dýrtíðartill. stj.? Til er heimild til að greiða þessa uppbót fram til júníloka, svo að tíminn er nægur. Það er 41/2 mánuður þar til sú till., sem hér liggur fyrir, kæmi til framkvæmda. Mér virðist því, að allt gæti gengið sinn eðlilega gang í þessu máli, þó að hæstv. stj. léti þetta bíða, þar til dýrtíðartill. hennar koma.

Annars varð ég fyrir nokkrum vonbrigðum, að hæstv. fjmrh. skyldi ekki svara fyrirspurn minni um það, hvort stj. væri reiðubúin til að tryggja öðrum stéttum þjóðfélagsins, að þær héldu óbreyttum þeim tekjum, sem þær nú hafa, til næstu áramóta eins og hér er lagt til að tryggja einni fjölmennustu stétt í þjóðfélaginu, fastlaunamönnum. Ég tel æskilegt, að hæstv. ráðh. segi eitthvað um álit sitt á því máli, eða er það svo, að stj. telji ekki jafnnauðsynlegt að tryggja, að aðrir menn í þjóðfélaginu, sem ef til vill eru alls ekki betur settir, haldi einnig óbreyttum tekjum sínum til næstu áramóta? Ég vil spyrja og óska mjög eftir að fá svör við því við þessa umr.: Ætlar hæstv. stj. að bera fram till. um að greiða uppbót á útfluttar landbúnaðarafurðir á sama hátt og ákveðið var á síðasta ári, svo að þeir, sem vinna að framleiðslu á landbúnaðarafurðum og þurfa alveg eins og launamenn að halda á sínum tekjum, fái nokkurn veginn svipaðar tekjur og aðrir, hlutfallslega, til næstu áramóta? Hefur hæstv. stj. hugsað sér að gera þetta? Mér virtist vera nokkurt samræmi í því, ef hún hugsaði sér að gera það, en ef hún hugsar sér ekki að gera það sjálf, mundi hún þá líta með velþóknun á slíka till., ef þm. gerðust til að bera hana fram? Mér þætti mjög æskilegt að heyra eitthvað frá hæstv. ráðh. um þetta atriði.

Hv. 8. þm. Reykv. sagði hér nokkur orð. Hann taldi þetta svo sjálfsagt mál, að varla þyrfti að ræða till. Ég vil spyrja hann: Álítur hann þá ekki sjálfsagt mál að tryggja um leið, að aðrar stéttir haldi tekjum sínum óbreyttum til næstu áramóta, eins og t.d. verkamannastéttin, eða telur hann það alveg tryggt, þó að engar sérstakar ráðstafanir verði gerðar? Hvað segir hann um það? Vill hann ekki með atkv. sínu stuðla að því, að bændur landsins fái sams konar uppbót á framleiðslu sína og þeim var ákveðin síðasta ár, eða er það svo, að þessi hv. þm. telji það eitt nægja að tryggja fastlaunamönnum óbreyttar tekjur, hvað sem öðrum líður? Telur hann þá þeim mun lakar setta en verkamenn, að þeir þurfi fremur þessarar tryggingar með? Vill hann líka vinna að því að tryggja öðrum sæmilega afkomu? Og þá væri æskilegt, að hann gerði grein fyrir, hvernig hann ætlar að gera það. Hefur hann vissu fyrir, að verkamenn hafi jafnmikla vinnu á þessu ári og á árinu, sem leið, og þar af leiðandi jafnmiklar tekjur? Er hann víss um þetta, eða vill hann gera sérstakar ráðstafanir til að tryggja, að nokkurs samræmis gæti í þessum hlutum?

Hv. 8. þm. Reykv. segir enn fremur, að fjvn. geri ráð fyrir, að þessi aukauppbót yrði greidd og hvorki ég né aðrir hafi hreyft andmælum. Þar til er því að svara, að fjvn. hefur fyrst við 3. umr. borið fram brtt. um þetta, og eins og hv. þm. veit, er 3. umr. fjárl. ekki lokið enn. Það hefur ekkert verið sagt um hana út af fyrir sig, og þaðan af síður er búið að greiða atkv. um hana, svo að enn er engu búið að slá föstu um till. fjvn. Það ætla ég, að hann viti, engu síður en ég.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði hér nokkur orð. Hann vill draga í efa, að allir menn í landinu hafi jafnbreið bök til að bera byrðarnar, þegar til komi að gera ráðstafanir í sambandi við dýrtíðina. Ég er honum sammála um það. En álítur hv. 4. þm. Reykv., að verkamannastéttin, þ.e.a.s. þeir, sem hafa ekki fasta atvinnu, muni hafa þeim mun breiðari bök en fastlaunamennirnir, að engin sérstök þörf sé á að tryggja þessum verkamönnum óbreyttar tekjur, en nauðsynlega þurfi að gera sérstakar ráðstafanir til, að fastlaunamenn haldi tekjum sínum óskertum? Það væri æskilegt að heyra álit hv. þm. nokkru skýrar, hvort hann telur, að fastlaunamennirnir séu þeim mun verr settir, að mest liggi á að tryggja þeim sín laun óskert, en verkamenn, sem hafa ekki fasta atvinnu, hafi þeim mun breiðari bök, að þeir megi fremur bíða.

Ég vil að síðustu ítreka þær óskir minar til hæstv. fjmrh., að hann skýri þinginu frá því, hvort stj. hefur hugsað sér að koma fram með till. um að tryggja öðrum stéttum, svo sem bændastéttinni, jafnmiklar tekjur á þessu ári og síðast liðnu ári, eins og hér á að gera við fastlaunamenn, og láti eitt yfir alla ganga í þessu efni. hað hefur þegar verið gerð grein fyrir því, að till., sem flutt var á sumarþinginu um uppbót á landbúnaðarafurðir, var beinlinis bundin við ákvörðun þingsins um að greiða þessa aukauppbót til fastlaunamanna, svo að það er alimikið samband þar á milli.