12.02.1943
Sameinað þing: 25. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í D-deild Alþingistíðinda. (3572)

135. mál, launabætur embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins

Eysteinn Jónsson:

Ég get ekki sagt, að það kæmi mér að óvörum, að hæstv. stj. flutti þessa till. Ég hafði búizt við, að hún mundi koma fram. Ég hélt, að mestur hluti þingheims gerði ráð fyrir slíku, og get ég því alls ekki ámælt henni á nokkurn hátt fyrir það. Mér hefur fundizt liggja í loftinu, að þingið mundi fara inn á þá braut að framlengja grunnlaunauppbótina til opinberra starfsmanna, eins og ástatt er í landinu um kaupgreiðslur.

Þessi þáltill., sem hér er verið að endurnýja, var samþ. á sumarþinginu vegna þeirrar grunnlaunahækkunar, sem þá hafði átt sér stað til þess að samræma kjör opinberra starfsmanna við kjör annarra launastétta. Nú hefur engin breyt. orðið á grunnlaunum annarra og ekki útlit fyrir, að það verði. Þess vegna hef ég gengið út frá, að þessi þál. yrði framlengd eins og hæstv. stj. gerir nú ráð fyrir. Hitt er annað mál, að launagreiðslur ríkisins eru í miklu ósamræmi, eins og verið hefur lengi, og þó að mörgum hafi leikið hugur á að færa þau til samræmis og lagfæringar, þá hefur bar ekki enn orðið úr framkvæmdum. Ég er því mjög ánægður að heyra yfirlýsingu hæstv. fjmrh. um það, að hann muni hefja undirbúning nýrra launalaga og láta endurskoða allt launakerfi ríkisins. Ég veit, að þar gætir mikils ósamræmis, og má jafnvel gera ráð fyrir, að ýmsir einstakir starfsmannahópar hjá ríkinu hafi jafnvel fengið óeðlilega hækkun í sambandi við þá bráðabirgðabreyt., sem gerð hefur verið. En þó að svo kunni að vera, þá finnst mér það ekki geta verið ástæða til, að ríkið skerist úr leik um að greiða uppbætur hliðstætt því, sem aðrir atvinnurekendur gera. Engar launabreyt. hafa verið gerðar, síðan þetta kom fram, og ekki sjáanlegt, að slíkar breyt. eigi sér stað á næstunni, a.m.k. hefur engin rödd komið í þá átt, hvorki frá verkamönnum né atvinnurekendum, þegar undan eru skildar þær umr., sem fram hafa farið um vandkvæði frystihúsanna.

Mér finnst, að við umr. um þetta mál verði menn að muna, að hér er verið að ræða um ákvarðanir um laun þeirra, sem eru í þjónustu ríkisins. Hitt er svo náskylt, sem hv. þm. V.-Húnv. hefur lagt áherzlu á, að Alþ. líti á og gefi því gaum, hvort samræmi er milli þeirra tekna, sem það vill greiða starfsmönnum sínum, og þeirra tekna, sem framleiðslustéttirnar hafa. Eins og hann benti á, voru á síðasta sumri gerðar um það sérstakar ráðstafanir, og mig undrar stórlega það ósamræmi, sem fram hefur komið af hálfu þeirra, sem láta sér annt um afkomu launastéttanna, þau ummæli, sem hafa fallið í sambandi við þær uppbætur, sem Alþ. hefur ákveðið á afurðir þeirrar framleiðslustéttar, sem hefur orðið fyrir því óláni, að verðlagið væri ekki í samræmi við launin, þ.e.a.s. það, sem til útlanda er flutt. Mér finnst sérstök ástæða til að benda mönnum á, að þetta málefni, afkoma framleiðslustéttanna, hefur ekki enn þá verið tekið fyrir, en með því að afgreiða þetta mál á þessa lund, gangast menn undir nokkra skyldu um það, sem á eftir hlýtur að fara í skyldum málum. Þetta fannst mér ég sjá ástæðu til að taka fram í sambandi við þær umr., sem hér hafa orðið.