12.02.1943
Sameinað þing: 25. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í D-deild Alþingistíðinda. (3573)

135. mál, launabætur embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins

Gísli Jónsson:

Ég skal vera stuttorður. Ég vil aðeins segja hæstv. ráðh. það, að ég hefði talið það heppilegast, að þetta mál hefði beðið, þangað til hægt hefði verið að ræða það í sambandi við þau stóru mál, þegar þau koma. Það er mikill munur bæði fyrir okkur þm. og fyrir þjóðina að sjá svona till. koma fram frá þm. eða sjá hana koma frá ríkisstj., sem sérstaklega hefur boðað með sérstökum boðskap, að hún ætli að gera herferð móti dýrtíðinni.

Ég vil svo ekki brella meir hæstv. ráðh., en ég vil segja nokkur orð við hv., 3. þm. Reykv. Þetta er engin yfirlýsing um tilraun til launalækkunar, nema síður sé, og get ég þá um leið svarað hv. 2. þm. Reykv. Eru þessir menn algerlega blindir fyrir ástandinu eins og það er? Er þeim ekki kunnugt um það, að t.d. frystihúsin hafa orðið að stöðvast, af því að ekki er hægt að reka þau vegna kaupgjaldsins? Er þeim alveg ókunnugt um, að verkalýðurinn, sem þeir eru að bera svo mikla umhyggju fyrir, hefur sums staðar orðið að lána þessum frystihúsum 10% af launum sínum til þess að brjóta ekki samningana? Er þeim óljóst um þessi atriði, sem eru að ske? Það er ekki nein herferð gegn þessum mönnum, að svona er komið. Frystihúsin hafa verið að stöðvast, og þessir samningar hafa verið gerðir bak við tjöldin. Verkamenn urðu að lána 10% af vinnulaunum sínum með þeim skilyrðum að fá. það ekki endurgreitt, ef frystihúsin gætu ekki borið sig. Ég skil ekki, hvernig þeir geta lokað augunum fyrir öðru eins og þessu, þó að þeir þykist vera að berjast fyrir verkalýðinn í landinu. Er þeim líka óljóst um, að smærri skip:n, sem hafa flutt út fisk, hafa orðið landinu til stórtjóns, af því að sjómenn og verkamenn börðust fyrir grunnkaupshækkun, sem kom 1. júlí? Er þeim alveg ókunnugt um þessi mál? Það dugði ekki einu sinni, að þáverandi ríkisstj. afnæmi tollana, sem búið var að leggja á þessa vöru. Það var ekki nægilegt, til að hægt væri að halda þessum atvinnuvegi áfram. Hér er ekki um neitt stríð að ræða, heldur aðeins verið að skýra frá því, sem er nú að gerast fyrir allra augum. Ég tala hér ekki fyrir munn neins flokks, heldur fyrir munn skynseminnar, því að það þýðir ekki að loka augunum fyrir því, sem er að gerast. — Ég er svo ekki að hafa á móti því, að byrðarnar séu lagðar á breiðu bökin, en ef þessir hv. þm. halda, að þessi mál verði löguð, án þess að byrðarnar séu að einhverju leyti lagðar á herðar allra landsmanna, þá er það misskilningur.