12.02.1943
Sameinað þing: 25. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í D-deild Alþingistíðinda. (3575)

135. mál, launabætur embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins

Skúli Guðmundsson:

Mér finnst gæta nokkurs misskilnings hjá hv. 3. þm. Reykv., sem síðast talaði, og öðrum, sem látið hafa í ljós álit sitt um það, að þetta mál þurfi að ljúkast, áður en fjárl. eru afgreidd. Ég get alls ekki litið svo á. (JakM: Ég sagði ekkert um, að málið ætti að ljúkast. Ég sagði, að ríkisstj. hefði borið að leggja fram þessa till., áður en fjárl. væru afgreidd). Ég býst við, ef þessi þáltill. verður samþykkt, hvort sem hún verður samþ. óbreytt eða henni verður breytt að einhverju leyti, ef á annað borð verður samþ. að greiða einhverjar uppbætur á þennan hátt, að þá verði það gert, hvað sem líður fjárlagaákvæðum. Og vitanlega væri leikur að haga fjárlagaafgreiðslunni þannig, að setja inn einhverja upphæð, sem ríkisstj. heimilaðist að nota í þessu skyni, að því tilskildu, að Alþ. semdi l. eða samþykkti ályktun um slíkar uppbótargreiðslur. Enda virðist mér hv. 3. þm. Reykv. nú líta svo á, að ekki þurfi að ljúka afgreiðslu þessarar þáltill., áður en afgreiðslu fjárl. er lokið.

Hæstv. fjmrh. kvaðst ekki telja sanngjarnt að ætlast til svars við fyrirspurn þeirri, sem ég bar fram, nú strax, og vildi taka frest til þess. Ég hef ekkert við það að athuga. En ég vil skjóta því til hæstv. ráðh., hvort hann vill ekki fallast á það, að þessari umr. verði frestað um sinn, meðan hæstv. ríkisstj. athugar málið betur. Og ég vildi mælast til þess, svo að svör frá hæstv. ríkisstj. gætu borizt, áður en fyrri umr. er lokið um málið. Því að þingið mun að sjálfsögðu halda áfram starfi, og liggur málinu þar af leiðandi ekkert sérstaklega á.