10.03.1943
Sameinað þing: 31. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í D-deild Alþingistíðinda. (3588)

135. mál, launabætur embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins

Finnur Jónsson:

Ég vildi fara nokkrum orðum um þessa þáltill. út af máli hv. þm. V.-Húnv. Mér skildist á honum, ef till. sú, er hér liggur fyrir, um að greiða áfram um stuttan tíma þær uppbætur, sem þegar hafa verið ákveðnar til starfsmanna ríkisins, væri samþykkt, þá bæri ríkinu að sjá um svipuð kjör hjá því fólki, sem ekki væri í þjónustu þess opinbera, þannig, að það fengi álíka uppbót á laun sin. Mér finnst harla einkennileg skoðun, sem fram kemur hjá þessum hv. þm., og það því einkennilegri, sem till. sjálf gefur ekkert tilefni til þess að koma fram með þetta. Þar er ekki einu orði vikið að öðrum starfsmönnum en þeim, sem vinna h já ríkinu.

Það hefur að vísu verið svo, að á síðast liðnu ári voru samþ. verðuppbætur til bænda, sem nema um 25 millj. kr., en þó að svo væri gert, hef ég ekki talið, að sú samþykkt næði svo langt, að ríkið ætti framvegis að sjá um það, að aðrar stéttir hefðu sömu tekjur og embættismenn, sem á einn eða annan hátt eru í þjónustu ríkisins.

En sé það skoðun hv. þm. V.- Húnv., að ríkinu beri skylda til að sjá um einhvers konar laun til bænda einna, um leið og það sér sínum eigin starfsmönnum fyrir sómasamlegum launum, þá verður að mótmæla því, að þeir einir séu teknir út úr og tryggð laun úr ríkissjóði. Virtist þá miklu eðlilegra, að ríkið tryggði öllum þegnum þjóðfélagsins lágmarkslaun, ef það skyldi vera skoðun hv. þm., að rétt væri að gefa bændum slíka tryggingu, en þá er þar um svo stórt mál að ræða, að athugun þessi ætti að fara fram í mþn. Launa úr ríkissjóði til bændastéttarinnar einnar saman er ekki hægt að kref jast af ríkinu, á meðan ekki hefur verið tekin upp sú aðferð að sjá um, að hver einstök stétt hafi tiltekin lágmarkslaun frá ríkinu. Hins vegar er það ótvíræð skylda ríkisins að sjá embættismönnum sínum fyrir þeim launum, sem hægt er að lifa sæmilega fyrir í þeirri dýrtíð, sem nú er í þessu landi, og ég sé ekki betur en að það sé það eina, sem þáltill. þessi fer fram á, og því sé rétt að halda sér við það atriði, en ekki koma með meira og minna óskyld mál inn í umr.