10.03.1943
Sameinað þing: 31. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í D-deild Alþingistíðinda. (3594)

135. mál, launabætur embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins

Gísli Sveinsson:

Herra forseti. — Það er aðeins að gefnu tilefni, að ég segi hér nokkur orð.

Það var verið að tala um það, að erfitt væri að ræða ýmis atriði í launal., sem þó væri nauðsynlegt að ræða og ráða til lykta. En ég vil bara segja það, að hæstv. Alþingi og ríkisstj. geta sjálfum sér um kennt. Hv. þm. Str. er nú að reyna að þvo hendur sínar vegna gerða sinna, á meðan hann átti sæti í stj. En honum tekst það ekki, þó að ég játi, að nauður rak þar til.

Nú ber svo til, að sú hv. stj., er nú situr (og e.t.v. situr nú ekki lengi), lýsir því yfir í orði, að hún ætli að gera það, sem aðrir hafa ekki gert á borði, sem sé það að koma með frv. til launal. Stj. þær, sem áður hafa setið, hafa ekki hætt sér inn á þá braut, og orsakast það meira og minna af flokkadráttum, sem sífellt hafa verið uppi hjá stj., svo að það hefur verið farið í kringum þetta mál eins og köttur fer í k,ringum heitan graut, og þar er hv. þm. V.-Húnv. ekki undanskilinn.

En nú er hér aðeins um það að ræða, að framlengja til áramóta greiðslu á þeim launauppbótum, sem áður hefur verið samþ. að greiða. Hvaða tilefni hefur þetta gefið hv. þm. V.-Húnv. til að tala eins og hann gerir? Það er ástæða til að spyrja: Til hvers ætlast hann? Ætlast hann til þess, að allir menn í landinu skuli vera á föstum launum hjá ríkinu, hvað sem þeir gera? Mér skildist á orðum hans, að hann halda því fram, ef þessi þáltill. yrði samþ., þá reki að því, að greiða yrði bætur á laun allra vinnandi þegna og að þeir, sem ekki væru vinnandi, yrðu að fá styrk, því að allir þyrftu að vera jafnir.

Hvernig hefur hv. þm. V.-Húnv. komizt inn á þessa braut? Hann, sem aldrei hefur játað sig undir kommúnisma eða sósíalisma? Hann, sem er sjálfur atvinnurekandi og launamaður, hvernig hefur hann komizt inn á þessa stefnu? Nei, hér er eitthvað forskrúfað. Það er eins og hann byggist við að þurfa að standa við þessi orð á næstunni í orðasennu úti um land. Þá er nú ekki að tala um dómgreind manna. Ég hélt, að menn væru nú ekki komnir á það svið, að því er þingsæti snerti, að þeir mættu ekki tala um þessi mál án þess að fara út í öfgar. Mér vitanlega standa ekki til þingkosningar á næstunni.

Nei, það hlýtur að vera öllum mönnum ljóst, að þeir, sem eru ráðnir til sérstakra starfa hjá ríkinu, verða að hafa að grundvelli einhvern samning um kaup. Þeir verða að vera ráðnir upp á eitthvað fast. Það er ekki til neins að halda því fram, að þeir líði ekki vegna dýrtíðarinnar. Þeir aka ekki heilum vagni heim. Og þeir verða fyrst fyrir barðinu á dýrtíðinni. Hinir, sem vinna fyrir daglaunum, verða betur úti, því að þá er kaup skrúfað upp frá degi til dags. Og þá er verðlag þannig hjá framleiðendum, að það þarf ekki að tala um að tryggja þeim fast kaup, nema þá að halda því niðri. Það verður aldrei komizt hjá því, að þeir, sem eiga að halda uppi ríkisstörfum (og það eru fleiri en ráðh.,

það eru allir starfsmenn í þjónustu ríkisins, undir þeim er allt komið), þeir þurfa að vera valdir menn, og það þarf að borga þessu fólki lífvænlegt kaup, og það er ekki hægt að halda því við störfin, nema það eigi kaup sitt víst frá ári til árs.

Þessari þáltill. er ekki ætlað að gera annað en það, sem hv. fyrrv. forsrh., Hermann Jónasson, o.fl. eru búnir að gera að litlu leyti. Nú er að taka ákvarðanir um það, hvort starfsmenn ríkisins eigi að njóta áfram þeirra kjarabóta, sem þeim voru veittar, eða hvort þeir eiga að missa þær og eiga þá á hættu að sæta því, að þessi kjör verði rýrari og verri, enda þótt þeir hafi eitthvað fast.