10.03.1943
Sameinað þing: 31. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í D-deild Alþingistíðinda. (3599)

135. mál, launabætur embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins

Finnur Jónsson:

Herra forseti. — Hv. þm. V.-Húnv. hélt því fram, að sams konar till. og þessi, sem hér liggur fyrir, hefði á síðast liðnu sumri orðið til þess, að öll einkafyrirtæki í landinu hefðu orðið að greiða sínum starfsmönnum grunnlaunauppbót. Ég hygg, að þetta sé ekki rétt. Einkafyrirtækin voru flest farin til þess, áður en Alþ. tók málið upp á dagskrá, þannig að ríkissjóður varð á eftir með greiðslur launauppbótar og hefur yfirleitt ekki orðið til annars en að staðfesta það, sem atvinnufyrirtæki voru búin að gera fyrir forgöngu verklýðsfélaganna í landinu.

Hv. þm. V.-Húnv. hélt því fram, ef framkvæmanlegt væri, að ríkið greiddi sínum starfsmönnum launauppbót, eins og gert er ráð fyrir í till., þá sé sanngjarnt, að bændum séu tryggðar ákveðnar tekjur. En uppbótartill. ganga ekki í þá átt að tryggja bændum vissar tekjur, heldur víssa uppbót á verð vörunnar vegna útflutningserfiðleika. Þetta verkar þannig, að það eykst mismunurinn milli ríkra og fátækra bænda. Þeir ríkustu fá mest, en þeir fátækustu minnst. Ef það ætti að miða uppbótina við það, að verið sé að tryggja bændum lágmarkslaun, þá ætti sá bóndi, sem á 50 ær, að fá hlutfallslega meira en sá, sem á 200 ær. Það kom fram hjá hv. þm. V.-Húnv., að ríkissjóði bæri bein skylda til að sjá bændum fyrir ákveðnum tekjum umfram aðra þegna þjóðfélagsins, ef þessi till. næði fram að ganga, án tillits til þess, hvort þeir eru ríkir eða fátækir.

Ég sé ekki, að þessi till. gefi tilefni til slíkra ályktana. Ef svo væri, ættu þessar skyldur að ná til annarra vinnandi stétta þjóðfélagsins. Þessi till. nær aðeins til starfsmanna stjórnarinnar, en ekki til annarra. En ég get sagt það fyrir hönd Alþfl., að efalaust mundi Alþfl. verða fylgjandi löggjöf til að tryggja öllum Íslendingum lágmarkslaun, en hins vegar ekki taka einstakar stéttir út úr til að tryggja þeim lágmarkslaun á þann hátt, sem Framsfl. byrjaði, að láta þá ríkustu fá mest og þá fátækustu minnst.

Hv. þm. Str. lýsti því yfir, að hann væri á móti till., af því að hann teldi ríkið ekki hafa möguleika á því að halda uppi þeim launagreiðslum, sem í till. fælust. Ég vil benda á, að þessi till. er aðeins staðfesting á því, sem Alþ. er þegar búið að gera. Það er búið að áætla þessar greiðslur í fjárlögunum. Ef hv. þm. Str. telur, að ríkissjóður hafi ekki möguleika á að inna þessar greiðslur af hendi, þá leggur hann þann dóm á fjárlögin, að þau séu ekki rétt. Ég man ekki, hvernig hann greiddi atkv., en ég hélt hann hafi greitt atkv. með því, að þessi greiðsla væri tekin upp í fjárlögin.

Ég hef fundið ástæðu til að benda á þetta, því að ekki varð annað séð við afgreiðslu fjárlaganna en meiri hl. hv. Alþ. teldi réttmætt, að ríkissjóður innti af höndum þær greiðslur, sem hér er um að ræða.