18.11.1942
Sameinað þing: 1. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í B-deild Alþingistíðinda. (36)

Rannsókn kjörbréfa

Eysteinn Jónsson:

Það eru örfá orð út af þessum orðum hæstv. forsrh., af því að þeir þm. Framsfl., sem tekið hafa til máls, hafa nú ekki lengur ræðutíma.

Út af þessum almennu síldarmjölsúthlutunum í landinu, þeim upplýsingum, sem stj. gaf fyrir kosningarnar og skýrslum, sem hæstv. ráðh. segir nú, að stj. ætli að gefa út bráðlega, vil ég vekja athygli á því, að fyrir kosningarnar fór að bera á því, að bændur gátu ekki fengið síldarmjöl. Þá kom í útvarpinu tilkynning frá hæstv. stj. að menn skyldu vera rólegir, því að meira væri til af síldarmjöli en venjulega og þar að auki talsvert af öðrum fóðurbæti. Þetta var ítrekað og byggt á bréfum frá Búnaðarfélagi Íslands og Viðskiptanefnd. En þegar búið er á kjördegi að stinga síðasta seðlinum ofan í atkvæðakassann, gefur rn. út nýja tilkynningu um, að menn geti fengið afgreitt 60% af pöntunum sínum á síldarmjöli, og höfðu þá margir ekkert pantað, af því að þeim hafði verið sagt, að meira væri til en notað hafði verið árið áður. Ef hæstv. forsrh. ætlar að gefa skýrslu um þetta mál, vill hann þá ekki líka gefa skýrslu um, hvað orðið hefur af þessu síldarmjöli? Ef það er rétt, að birgðir hafi verið meiri en venjulega, hvers vegna fengu menn á stórum svæðum þá miklu minna en áður? Hæstv. ráðh. getur verið alveg rólegur, þó að hann gleymi að setja þetta í skýrsluna, þá mun nú samt verða gerð tilraun til að fá að vita, hvað orðið hefur af mjölinu.

Ég ætla að öðru leyti ekki að lengja umr., sem hér hafa farið fram um þá rannsókn, sem sérstaklega hefur verið rædd, en vil að endingu aðeins undirstrika, að því hefur verið haldið fram, að það síldarmjöl, sem Kveldúlfur lét bændur fá síðastliðið haust, hafi eingöngu verið látið eftir pöntun bænda. Ég vil biðja menn að muna eftir þessu, þegar niðurstaða þessarar rannsóknar liggur fyrir.