10.03.1943
Sameinað þing: 31. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í D-deild Alþingistíðinda. (3602)

135. mál, launabætur embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. — Ég ætla að segja aðeins örfá orð, áður en atkvgr. fer fram, og vildi ég, af því að ég átti sæti í n. þeirri, sem fjallaði um málið á sumarþ., lýsa afstöðu minni til þess.

Þessar uppbætur, sem veittar voru á laun opinberra starfsmanna, voru ákveðnar vegna þess, að allar aðrar stéttir höfðu fengið grunnlaun sín hækkuð.

Síðan dýrtíðarfrv. kom frá ríkisstj., hefur ekki verið amazt við þessari samþykkt, og sé ég því ekki ástæðu til þess að vera á móti framlengingu þessa ákvæðis.

Hins vegar vil ég taka undir það með hv. þm. Str., að launauppbót til embættismanna og opinbers starfsfólks hefðu átt að falla niður. Ég greiddi því atkv. á móti því við afgreiðslu fjárl., að þessar aukauppbætur væru settar inn í fjárlögin.

Þótt ég sé á móti því, að aukauppbætur þessar séu settar inn á fjárlög, þá treysti ég mér ekki til þess að vera mótfallinn þessari till., sökum þess að þá mundi fjöldi þeirra lægstlaunuðu verða mjög afskiptur.

Ég skal játa, að það væri rökrétt afleiðing af afstöðu minni, að ég flytti brtt. við málið, en ég hef ekki flutt hana, vegna þess að ég álít, að meiri hluti hv. Alþ. muni samþ. till. þessa.

Þá vil ég taka það fram, að ég álít, að leggja Meri áherzlu á endurskoðun launalaga. Það hefur lengi verið ósamræmi í launagreiðslum ríkisins, og það er alltaf að aukast. Vegna þess misréttis, sem þar gætir, treysti ég mér ekki til að vera á móti þessari þáltill. Ef hún næði ekki samþykki, mundi það kannske verða til þess, að starfsmannaflokkar ýmsir yrðu útundan á þessu sviði.