10.03.1943
Sameinað þing: 31. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í D-deild Alþingistíðinda. (3614)

135. mál, launabætur embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins

Skúli Guðmundsson:

Ég hef nú að vísu lokið mínum ræðutíma. En með leyfi hæstv. forseta vildi ég aðeins segja örfá, orð út af ræðu hv. 2. landsk. þm. Þessi hv. þm. var að tala hér um gjaldþrotayfirlýsingar í ræðu sinni áðan. Það minnti mig á þá gjaldþrotayfirlýsingu, sem stærst hefur verið gefin á þessu þ. og sjálfsagt, þó að þingsaga fleiri ára væri athuguð, sem kom frá þeim mönnum, sem telja sig gæta hagsmuna Siglufjarðarkaupstaðar í sambandi við rafmagnsmál. Þeir lýstu yfir — og hv. 2. landsk. veik að þessu rafmagnsmáli áðan, þó að það snerti tiltölulega lítið þessa þáltill., sem hér liggur fyrir, — að Siglufjarðarbær væri fær um að virkja Fljótaá, hvort sem hann fengi ábyrgð fyrir láni eða ekki, aðeins mundi það verða dýrara án ábyrgðarinnar. En nokkru síðar lýstu hinir sömu menn því yfir, að Siglufjarðarbær væri ekki fær um að fá að láni án ríkisábyrgðar aðeins 15% af kostnaði við þessa framkvæmd. Ég held, að þetta sé sú stærsta gjaldþrotayfirlýsing, sem nokkurn tíma hefur verið gefin hér á Alþ., en ég efast mjög um, að hún sé rétt, því að ég efast mjög um það, að þessir menn, sem stjórnað hafa Siglufirði undanfarið, hafi gert það svo illa, að þetta geti staðizt.

Þá hóf sami hv. þm. söng nokkurn um bændastéttina, sem maður hefur heyrt að undanförnu, um það, að þeir væru ómagar á öðrum stéttum o. þ. u. l. Þetta minnti mig á, að ég hafði lesið nýlega í siglfirzku blaði sams konar ummæli og í mjög svipuðum búningi — ekki í blaði, sem gefið er út af Sósíalistafl. á Siglufirði, heldur Sjálfstfl. Mér er kunnugt, að margir betri menn í Sjálfstfl. hafa raun af því, hvernig þessi flokksbróðir þeirra skrifar um þessi mál. En það er annar, sem er ánægður með slík skrif, hv. 2. landsk. þm., og hann leitar sérstaklega sálufélags með úrvalinu neðan frá í Sjálfstfl. og situr í hópi með þeim, sem skrifa svipað um þetta í Siglfirðingi eins og hann talaði hér áðan. Má segja, að sækist sér um líkir.