21.01.1943
Neðri deild: 39. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í B-deild Alþingistíðinda. (363)

119. mál, verðlag

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, um verðlag, er að því leyti frábrugðið þeim l., sem gerð hafa verið um þessi mál, að það er miklum mun víðtækara og tekur til flestra gagna og gæða, sem almenning varða, að undanteknum þeim vörum, sem verðlagðar eru samkv. sérstökum l. Skal ég sérstaklega benda á, að hér er tekið upp, að það megi ákveða greiðslur til verkstæða og annarra verktaka fyrir alls konar verk, svo sem pípu- og raflagningar, smíðar, málningu og veggfóðrun, saumaskap, prentun og því um líkt. Framkvæmdinni er einnig mikið breytt, þar sem hér er gert ráð fyrir, að einn maður hafi þessar framkvæmdir aðallega á hendi undir yfirstjórn viðskiptaráðs. Þessi aðili er í frv. nefndur verðlagsstjóri. Ætti þessi tilhögun að tryggja róttækari og einbeittari framkvæmd þessara 1. en hingað til hefur verið.

Eins og frv. ber með sér, er gert ráð fyrir því, að verðlagsstjóri og annar maður, sem ríkisstj. skipar, taki sæti í viðskiptaráði, þegar fjallað er um verðlagsmál, og að tveir menn, eftir ákvörðun ríkisstj., sem í ráðinu eru, víki þá úr sæti, þegar slík mál eru rædd. Telur ríkisstj. heppilegast, að þeir menn, sem um verðlagsmálin fjalla aðallega, fái á þennan hátt atkvæðisrétt um slíkar ákvarðanir.

Það er, eins og áður hefur verið tekið fram hér í þessari hv. d., allt undir því komið, hvernig framkvæmdin verður í þessum málum, hversu góður árangur verður vegna þessarar lagasetningar. Ég get fullvíssað hv. þd, um það, að ríkisstj. mun gera allt, sem í hennar valdi stendur, til þess að þessi lagasetning megi ná tilgangi sínum, sem er að tryggja almenningi í landinu heilbrigt verð á öllum vörum og koma í veg fyrir óheilbrigða álagningu, hvort sem er á vörur eða vinnu eða hvar, sem slíkt kemur fram.

Ég tel óþarft að fjölyrða meira um þetta. En ríkisstj. væntir þess, að hv. þd. sjái sér fært að afgreiða þetta frv. fljótlega, sem hér liggur fyrir, til þess að þessar framkvæmdir, sem nú er stefnt að, geti sem fyrst komizt í það form, sem þeim er ætlað að vera í.

Ég geng út frá því, að frv. verði vísað til n.