21.01.1943
Neðri deild: 39. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í B-deild Alþingistíðinda. (364)

119. mál, verðlag

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. — Það er vafalaust alveg rétt hjá hæstv. viðskmrh., að það er allt komið undir framkvæmd þessa frv., ef að l. verður, hvaða gagn af því leiðir. Í raun og veru er í frv. ekki lagt til, að gerðar séu neinar stórar breyt. á því, sem áður hefur gilt í löggjöfinni. Við höfum nú um árabil haft löggjöf um verðlagseftirlit, sem fyrst var í höndum verðlagsn., sem skipuð var eftir ákvæðum löggjafar um það atriði á sínum tíma. Því næst komust verðlagsákvarðanirnar í hendur svo nefndrar dómnefndar. Og loks er lagt til með þessu frv., enda ákveðið áður með 1., sem afgr. hafa verið á hæstv. Alþ., að ákvörðun verðlags skuli vera í höndum viðskiptaráðs. Að sjálfsögðu skiptir engu máli, hvort sú stofnun, sem fer með þessi mál í heild, heitir Verðlagsnefnd, Dómnefnd eða Viðskiptaráð. Það er ekkert aðalatriði, heldur hitt, hvað gert er af þeirri stofnun, sem fer með þessi mál á hverjum tíma. Í l. um verðlagseftirlit og síðar í l. um dómnefnd voru ákvæði um mjög víðtækt eftirlit með verðlagi í landinu, álíka víðtækt og í þessu frv., eða a.m.k. enginn reginmunur þar á. Verðllagsn. átti að hafa sinn skrifstofustjóra, sem var eins konar framkvæmdastjóri og hafði sömu eða svipaða stöðu og ætlazt er til, að verðlagsstjóri hafi nú. Eðlismunur á þeirri löggjöf, sem gilt hefur, og þeirri, sem á að setja nú, er því enginn, heldur stigmunur, aðallega formsmunur, sem ekki skiptir neinu verulegu máli. Því að það var eftir eldri l. hægt að láta skrifstofustjóra verðlagsn. og dómn. hafa með höndum það, sem verðlagsstjóra er ætlað eftir þessu frv., því að honum er ætlað að gera aðeins till. til viðskiptaráðs um verðlagsákvæði og hafa á hendi framkvæmd þeirra og eftirlit með, að þeim sé hlýtt. Og loks á hann að vera einn af þeim mönnum, sem greiða atkv. um verðlagsmál í víðskiptaráði.

Það er þess vegna mála sannast, að allt er undir framkvæmdinni komið, hvernig þetta fyrirkomulag reynist. Hér er því sérstaklega um smá-formsbreyt. að ræða, sem ætlazt er til, að gerð verði. Þessi formsbreyt. er sjálfsagt ekki óeðlileg, — gerir líklega hvorki til né frá —, og ekki rétt að amast við henni. Og ef hún gæti orðið til styrktar málinu, er sjálfsagt að koma henni á. En hvort hún verður það, er eins og ég sagði áðan undir framkvæmdinni komið. Ég lýsti yfir, þegar núv. hæstv. ríkisstj. hefur flutt annað frv. áður á hæstv. Alþ., sem snertir svipað atriði, — ráðstafanir gegn dýrtíðinni —, að árangur þeirrar löggjafar væri undir framkvæmdinni kominn, hvernig hún tækist. Og svo er enn. Það er ákaflega mikið undir því komið einmitt, hvernig tekst val á þeim manni, sem á að hafa með höndum framkvæmdir verðlagseftirlitsins, verðlagsstjóra, og þeim manni einnig, sem á að vera honum til aðstoðar og greiða atkvæði ásamt honum í víðskiptaráði.

Nú skal því ekki leynt, að eins og lögð var mikil áherzla á það, að mikið væri undir því komið, hvernig tækist um skipun viðskiptaráðs, þá munu ærið margir hafa búizt við, að sú skipun yrði á aðra lund en raun varð á, yrði til þess að vekja meira traust almennings á því, að eitthvað skynsamlegt og fast og röggsamlegt ætti að gera í þessu máli. Ég hygg, að menn hafi orðið fyrir vonbrigðum nú, þegar á fyrsta stigi þeirrar ráðstöfunar. En það er ekki ástæða til að örvænta,

heldur bíða átekta, þó að trú manna kunni eitthvað að hafa minnkað, vegna þess að mönnum finnst val hæstv. ríkisstj. á mönnum í viðskiptaráð ekki hafa tekizt eins vel og við hefði mátt búast af jafngóðum og gegnum mönnum, sem ríkisstj. skipa. En ég vil segja fyrir mitt leyti, að þó að bæði ég og margir fleiri hafi orðið fyrir vonbrigðum í því efni, þá er ekki ástæða til annars en að bíða og sjá, hvernig framkvæmdir takast í höndum þessara manna, sem eiga að fara með verðlagsmálin undir stjórn hæstv. ríkisstj. En mörgum mun finnast, að í skipun viðskiptaráðsins hafi verið höggvið nærri a.m.k. þeim anda, ef ekki beinum ákvæðum þeirra 1., sem nú eru nýafgr. frá hæstv. Alþ. En það fer aldrei vel, að svo sé gert. Og það er sízt til þess að auka samvinnu milli ríkisstj. og Alþ., ef Alþ. virðist, að það sé ekki tekið fullt mark á gerðum þess og 1. ekki fylgt í framkvæmdinni. Ég á þar við, því að það er öllum ljóst, að það virðist svo sem tvenn heildarsamtök hér í landinu hafi verið látin ráða eða a.m.k. tekið það tillit til þeirra, að úr hópi þeirra hafi verið valdir tveir menn í viðskiptaráðið, og þarf ekki að nafngreina þá. En það var þetta, sem Alþ. ætlaðist til, að ríkisstj. tæki í ráðið menn, sem væru engum háðir, þ.e. ekki bundnir við hagsmunamál sérstakra fyrirtækja, félaga eða atvinnurekenda í landinu. Þetta hafa mönnum orðið vonbrigði. En ég endurtek enn, að allt er komið undir framkvæmdinni, og má vera, að betur takist til en til er stofnað af hæstv. ríkisstj. í þessu efni.

Að vísu kann það að hafa vakið nokkurn ugg manna, að svo einkennilega vill til, að undan einum manni, sem valinn var í viðskiptaráð, hefur verið kvartað yfir því, að hann hafi brotið fyrirmæli settrar löggjafar til þess að halda niðri verðlagi í landinu. Ég efast ekki um, að hæstv. ríkisstj. hafi verið ókunnugt um þetta. En það sýnir það, sem ég hygg, að almenningi er ljóst, að það hefur til þessa ekkert aukizt eftirlit í landinu með því, að verðlagsákvæðum væri fylgt, og það hefur verið skortur á því eftirliti undanfarið. Sá skortur er enn, en við skulum vona, að úr þeim skorti verði eitthvað bætt, þegar þetta frv. í þeirri mynd, sem það kynni að verða samþ. í sem l., kemur til framkvæmdar. En ég álít hollt fyrir hæstv. ríkisstj. að fá að heyra raddir hv. þm., sem kynnu að vera á þá lund, að þeim mislíkaði það, sem gert er, því að það kynni að vera hæstv. ríkisstj. nokkur leiðbeining í þeim efnum, að svo miklu leyti, sem hún vill taka tillit til vilja Alþ.

Ég mun svo ekki fjölyrða frekar um þetta. En ég sé enga ástæðu til annars en að samþ. þetta frv. Það kynni að þurfa að gera á því einhverjar breyt., sem ég sé ekki ástæðu til að fara inn á nú. En ég tel sjálfsagt, að hæstv. Alþ. gefi hæstv. ríkisstj. með löggjöf alla þá möguleika, sem hún óskar eftir, til þess að gera röggsamlegar og skynsamlegar framkvæmdir til ráðstafana gegn dýrtíðinni. Svo er það bæði Alþingis og manna, sem við opinber mál fást, og almennings í landinu að dæma um á sínum tíma, hversu vel ríkisstj. heppnast að nota heimildir Alþ. til þess að gera slíkar ráðstafanir, sem að gagni komi.

Þetta mál fer að sjálfsögðu til n., og þar verður það athugað nánar.