21.01.1943
Neðri deild: 39. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í B-deild Alþingistíðinda. (366)

119. mál, verðlag

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Mér þykir leitt, að það skuli valda hv. 2. þm. Reykv. (EOl) mikillar áhyggju, að þeir tveir menn, sem hann gerir að umræðuefni og hafa verið skipaðir í viðskiptaráð, skuli eiga að víkja þar úr sæti, þegar ráðið tekur ákvarðanir um verðlagsmál. Það kemur mér satt að segja kynlega fyrir sjónir, hvernig mjög hann ber þá fyrir brjósti í þessum efnum.

Ég sagði það í framsöguræðu minni, að ríkisstj. teldi það heppilegt, að verðlagsstjóri og sá, sent honum verður til aðstoðar, og aðallega hafa með verðlagsmálin að gera, taki sæti í ráðinu og hafi atkvæðisrétt um þau mál, þegar slíkar ákvarðanir eru á döfinni. Hv. þm. getur dregið hvaða ályktanir, sem hann vill í því sambandi. En ég hef að svo stöddu engu við það að bæta.

Hvað snertir þann mann í ráðinu, sem hv. þm. minntist á síðast, skal ég upplýsa, að ríkisstj. er algerlega ókunnugt um það, sem hv. þm. hefur þar minnzt á, og veit ekki annað um það en það, sem staðið hefur í sumum dagblöðunum í morgun.