21.01.1943
Neðri deild: 39. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í B-deild Alþingistíðinda. (368)

119. mál, verðlag

Ég held, að ef n. á að fjalla um þetta mál hér á Alþ., þá þurfi að liggja fyrir einhver rök um það, að þetta, sem ég spurði um, sé nauðsynlegt, að ryðja mönnum svona úr ráðinu. Það hefur nú þegar komið fram frá hv. 2. þm. S:

M. (EystJ), að það væri a.m.k. ekki ástæða til, að nema einn maður víki úr ráðinu, þegar um verðlagsákvarðanir er að ræða, og þá með sérstöku tilliti til þess, að verðlagsstjóri kæmi þar sérstaklega inn í. Ég álít, að þó að þingið vilji meta ríkisstj. okkar mikils, þá séu frá henni óskir einar um þetta ekki nægilegar, heldur verði að fylgja þeim rök fyrir því, að hve miklu leyti heppilegt sé, að þetta verði þannig framkvæmt. Það væri, að ríkisstj. hefði að sjálfsögðu framkvæmt þetta alveg án tillits til þess, sem sett hefði verið í l. á Alþ.

Í öðru lagi vil ég segja það, að mér fannst ófullkomið svar hæstv. viðskmrh. um þann mann í víðskiptaráði, sem spurt var um, Jón Ívarsson. Ég spurði, hvar ríkisstj. hefði leitað upplýsinga um hann. Ef hún hefði t.d. verið búin að tala austur á Hornafjörð, hefði hún heyrt um verðlagið þar. Það var strax eftir nýár búið að framkvæma þessar hækkanir. Kolaskipið var komið og kolin hækkuð í 220 kr. Það er engum efa bundið, að ríkisstj. hefði fengið þessar upplýsingar, ef hún hefði grennslazt eftir því. Það væri æskilegt að vita, af hverju hún valdi þennan mann í viðskiptaráð.

Ég spurði líka, hvað ríkisstj. hefði hugsað sér að gera, ef það væri rétt, sem haldið væri fram. Hæstv. ráðh. talaði um það röggsamlega, að ríkisstj. mundi sjá til þess, ef óhæfir menn hefðu verið settir, að nýir og betri kæmu í þeirra stað, og þetta hafði hann sem mótrök á móti því, að þingflokkarnir skipuðu í ráðið. Það væri fróðlegt að heyra, hvernig ríkisstj. hugsar sér að vera eins röggsöm í framkvæmdum og í sínum ágætu ræðum.

Hvaða laun eru þessum mönnum ákveðin? Það var svo frá skýrt í þinginu, að formaður ráðsins væri launaður sem væri þetta hans aðalatvinna, en nú hafa tveir menn sagt lausum háum launum til að fara í ráðið. Hefur stj. breytt eitthvað sínum fyrri áformum um laun þeirra?