22.03.1943
Sameinað þing: 33. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í D-deild Alþingistíðinda. (3680)

163. mál, kaup gistihúsið Valhöll

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Við leggjum til, 3 alþm., að Alþ. samþykki að heimila stj. að kaupa gistihúsið Valhöll á Þingvöllum af núverandi eiganda þess, og jafnframt, að ríkisstj. sé falið að taka til athugunar, á hvern hátt bezt verði komið fyrir framtíðarrekstri gistihúss á Þingvöllum á þessum stað. Við teljum, að mjög mikið velti á, að þessi rekstur á Þingvöllum fari sem bezt úr hendi og verði þjóðinni til sæmdar, en á engan hátt þannig, að minnkun sé að. Sá maður, sem hefur gistihúsið nú, hefur fyllsta vilja á og hefur sýnt viðleitni til að reka það með þeim hætti, sem allir óska. En því er ekki að leyna, að verulegir misbrestir hafa orðið á í þessu efni.

Þingvallanefnd hefur athugað þetta mál að mjög verulegu leyti og er yfirleitt þeirrar skoðunar, að ákaflega sé erfitt að sameina það tvennt að reka þar tiltölulega lítinn tíma gistihús með hagnaðarvon fyrir augum og gæta þess, að allt fari þar fram með þeirri reglu og prýði, sem skylt er á slíkum stað. Nægir þar að benda á, hvílíkir feikna örðugleikar eru á að sameina í einu húsi gistihúsastarfsemi og greiðasölu. Margt fólk kýs hvergi heldur að dveljast í sumarleyfi sínu en á Þingvöllum og mundi jafnvel vilja búa þar, ef þar væri sæmileg aðbúð og næði, auk þess sem í sumum tilfellum streyma þar um þúsundir manna, sérstaklega um helgar, til þess eins að njóta þar útivistar einn dag og þeirrar hressingar, sem fylgir því að vera þar. Einhvers staðar þarf þetta fólk að fá fyrirgreiðslu. Veður eru misjöfn og því nauðsynlegt, að þarna sé einhver sá staður, sem þetta fólk getur leitað til. Á sama hátt er kunnugt, að sumir vilja vera þarna og eiga þar rólega og næðisama dvöl. M.ö.o., n. hefur gert sér ljóst, að það er ákaflega erfitt að reka gistihús þar, sem fólk vill hafa næðisama sumardvöl, og greiðasölu fyrir ferðafólk, sem er þarna í skyndiferðum og stendur við aðeins stutta stund. Það er því nauðsynlegt að greiða þarna verulega á milli greiðasölu og gistihúsrekstrar. Sennilega er flestum einstaklingum um megn að sjá um þetta, svo að í lagi sé, nema þá mjög fjársterkum mönnum, og sennilegt, að sá rekstur yrði svo dýr og hagnaðarvonin svo lítil, að menn mundi ekki fýsa að taka slíkan rekstur að sér. Að vísu hafa einstakir menn farið þess á leit við stj. að fá leyfi til gistihúsrekstrar á Þingvöllum. Þetta bréf var sent n. til athugunar og var svarað með bréfi til stj. Var þar bent á hugmynd, sem oft hefur verið rædd í n. og litið eitt athuguð, en ekki að verulegu leyti, en það er, að þeir þrír aðilar, sem í framtíðinni verða þessu nákomnastir, ríkisstj., bæjarstj. og Eimskipafélag Íslands, sem flytur á skipum sínum mikið af þeim ferðamönnum, sem hingað koma, — að þessir þrír aðilar í félagi reisi gistihús á Þingvöllum og sjái um reksturinn, en öflun fjár í þessu skyni fari auðvitað fram með þeim hætti, sem bezt hentar, og auðvitað verða fleiri sjónarmið en hagnaðurinn að koma til greina við reksaur bessa fyrirtækis.

Ég sé ekki ástæðu á þessu stigi málsins til að ræða þetta frekar. Að sjálfsögðu er ekki ætlazt til, að þessi heimild verði notuð, nema viðunandi samningar náist við núverandi eiganda gistihússins.

Ég legg til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til síðari umr. og fjvn. til athugunar.