05.04.1943
Sameinað þing: 38. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í D-deild Alþingistíðinda. (3684)

163. mál, kaup gistihúsið Valhöll

Frsm. (Jónas Jónsson):

Þetta mál var flutt fyrir nokkru að tilhlutun Þingvallan. Fjvn. hefur athugað málið og mælir með því, að það verði samþ. Það hefur komið æ betur í ljós, að varla er hægt fyrir einstakling að hafa gistihús eins og Valhöll og gera það úr garði eins og þyrfti, nema því aðeins, að hann sé því fésterkari. Sá, sem nú á eignina, vill að vísu gera sitt bezta, en það er þó álit n., að ekki verði til lengdar komist hjá því, að þjóðfélagið taki þetta mál í sínar hendur og hlynni meir að þessum gistihúsrekstri en gert hefur verið til þessa. Í þessari till. liggur raunar ekki annað en það, að ríkisstj. leiti eftir því við eiganda Valhallar, hvort hann vilji selja eignina. N. vill ekki að svo stöddu leggja fram till. um eignar námsheimild. Hún vill fara sem bezt að manninum. Út af því, sem haldið hefur verið fram í einu dagblaðanna hér, að n. vilji hafa ríkisrekstur á gistihúsinu, vil ég benda á, að ekkert hefur verið um það rætt. En talað hefur verið um það, að eignin yrði leigð veitingamanni, væntanlega til skamms tíma. En að sjálfsögðu yrði að hlynna að gistihúsinu meir en nú er gert. Ætti ekki að þurfa að óttast tap á eigninni, þótt hún yrði rekin á þennan hátt.