05.04.1943
Sameinað þing: 38. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í D-deild Alþingistíðinda. (3686)

163. mál, kaup gistihúsið Valhöll

Kristinn Andrésson:

Ég er á annarri skoðun en hv. þm. Dal. um það atriði, að ég álít, að miklu fyrr hefði átt að vera búið að breyta til um tilhögun á gistihúsrekstri þeim, er starfræktur hefur verið á Þingvöllum, og að það fyrirkomulag, sem er á Þingvöllum, sé sízt til sóma þeim helga stað. Má það undarlegt kallast, að Þingvallan. skuli ekki fyrr hafa hafizt handa um að breyta þar til um gistihúshald og annað, sem þar er ábótavant.

Þó að Þingvallan. hafi nú sýnt af sér þá röggsemi að hefjast handa í þessu efni, þá er það svo, að í raun og veru felst lítið í þeirri þáltill., sem nú liggur fyrir til umr., af því, sem þarf að koma þar fram, ef um einhverja endurbót á að vera að ræða á Þingvöllum, sem um munar. Það þarf ekki einungis að fást heimild til þess að kaupa Valhöll, heldur þarf og að vera gefin heimild til þess, að hægt sé að taka eignina eignarnámi, ef viðunandi samningar geta ekki tekizt.

Í fyrsta lagi er gistihús það, sem nú er á Þingvöllum, ekki á heppilegum stað, og í öðru lagi er það ekki samboðið þeim fornhelga stað. Þegar þetta er athugað, þá er ég að því leyti samþykkur því, sem hv. þm. Dal. sagði, að ég tel þessa þáltill. ekki nærri nógu vel undirbúna. Hefði sjálfsagt verið réttara að hafa þetta mál í frv.-formi og að tryggja þar eignarnámsheimildina,

og enn fremur að hafa í því frv. róttækar og hagkvæmar breytingar á gistihúshaldi og öðru fyrirkomulagi á Þingvöllum.

Þar sem ég hef nokkurn grun um, að hv. Þingvallan. hafi ekki rækt starf sitt sem skyldi, og mér er ekki fyllilega ljóst, hvernig starfseminni er háttað og hvernig reikningshald hennar er, þá vil ég bera fram nokkrar spurningar til þessarar hv. n. og óska eftir að fá þeim svarað.

Í fyrsta lagi: Hvað hefur ríkið kostað miklu fé til byggingar, viðgerða og annarra umbóta á gistihúsinu Valhöll frá 1928 og fram á þennan dag? Í öðru lagi: Hvaða fríðinda hefur gistihúseigandinn notið hjá Þingvallan., og hvers virði eru þau? Hefur hann fengið ívilnun um lóðaleigu, undanþágu frá friðun silungs í Þingvallavatni, afnot af beit eða önnur hlunnindi þar á staðnum? — Í þriðja lagi: Á hverju byggist sá orðrómur, að gistihúseigandinn hafi fyrir nokkrum árum lofað að gefa ríkinu Valhöll eftir sinn dag? Í fjórða lagi: Hefur Þingvallan. notað heimild, sem hún hefur í l. frá 1928, til að taka eignarnámi afnotarétt af landspildunni fyrir vestan Öxará, sem heyrir undir Brúsastaði, en það eru fornu búðatætturnar, Lögréttugrunnurinn, Lögberg og allt svæðið undir sumarbústöðunum suður með Þingvallavatni, vestan Öxarár. Spilda þessi var að dómi allra Íslendinga á sínum tíma helgasti staðurinn á Þingvöllum.— Og í fimmta lagi: Væri ekki rétt af Þingvallan. að framkvæma heimild þessa í friðunarl. Þingvalla 1928 um eignarnám afnotaréttarins á áðurgreindri landspíldu, sé það ógert?

Loks vil ég leyfa mér að benda á það, að nýtt gistihús á Þingvöllum er mikið nauðsynjamál, ef staður þessi á að vera haldinn svo, að til sóma sé fyrir landið. Að því leyti er þessi till. þakkarverð, að hún er e.t.v. spor í áttina, að svo verði gert, að nýtt og veglegt gistihús rísi á Þingvöllum og framtíðarskipulag á gistihúsrekstri og greiðasölu ásamt hirðingu staðarins og viðhaldi verði svo, að til sæmdar verði þessum víðfræga stað og þjóðinni í heild.