05.04.1943
Sameinað þing: 38. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í D-deild Alþingistíðinda. (3687)

163. mál, kaup gistihúsið Valhöll

Frsm. (Jónas Jónsson):

Herra forseti. — Ég get að miklu leyti svarað hv. þm. Dal. og hv. 7. landsk. þm. báðum í einu út af því, sem fram kom í ræðum þeirra.

Um fyrirspurnir þær, sem hv. 7. landsk. kom með og beindi til Þingvallan., þá er um þær að segja, að sumar þeirra voru þess eðlis, að þær ættu að koma skriflegar til n., þar sem þær þarfnast umhugsunar og reikningsskapar. En að því leyti, sem þeim er hægt að svara nú, þá get ég sagt það, að á alþingishátíðarárinu, 1930, var húsakostur á Þingvöllum lagaður mikið, en þær aðgerðir voru Þingvallan. alveg óviðkomandi, þar sem ríkið bar þann kostnað, sem af því leiddi, og munu reikningar yfir þann kostnað vera geymdir ásamt öðrum reikningum ríkisins í landsreikningunum. — Ef til kemur, að um sölu á gistihúsinu Valhöll verður að ræða, þá þarf auðvitað að reikna út, hve mikið ríkið á í því húsi, og er það reikningsdæmi, sem á að vera hægt að reikna út á sínum tíma, þegar öll gögn eru fyrir hendi.

Um það, hvort Þingvallan. hafi notað eignarnámsheimild um að taka til afnotaréttar Lögberg og aðra fornfræga staði, sem Jón Guðmundsson hefur í eigu sinni, þá er um það að segja, að það í sjálfu sér skiptir ekki svo miklu máli, þó að hann hafi enn ekki verið notaður, heldur það eitt, að staðurinn sé friðaður, og það hefur Þingvallan. komizt að samkomulagi um við Jón Guðmundsson. — Um sumarbústaðalandið fram með Þingvallavatni er það að segja, að ríkið og Jón Guðmundsson skipta með sér tekjum af því, og þykir það heppileg ráðstöfun eins og á stendur.

Þá var hv. 7. landsk. að óska eftir því, að heimilað væri eignarnám um leið til þess að slá þar varnagla, ef ekki væri hægt að semja um kaupin á gistihúsinu Valhöll. Þingvallanefnd leit svo á, að ekki ætti að fara fram á heimild til eignarnáms að svo komnu a.m.k., og það af þeim ástæðum, að sá maður, sem á þá eign, sem um er að ræða, er búinn að reka þarna starf sitt í fjöldamörg ár, og hann hefur gert það af miklum áhuga og árvekni og eins vel og honum var nokkur kostur. Af þessum sökum hefur Þingvallan. heldur viljað hafa þá aðferð, sem hér er lagt til, að höfð verði, með því að hún er ekki eins harkaleg og ef heimilað væri eignarnámið. Sökum þess að eigandinn hefur í starfi sínu sýnt þennan áhuga, sem ég minntist á, og rækt starf sitt með samvizkusemi, hefur n. látið bíða þar til nú að leggja til, að breyting yrði gerð á skipun þessara mála á Þingvöllum. En nú er svo komið, að Jón Guðmundsson er orðinn heilsutæpur maður, og starfsemi hans því honum erfiðari og hann ekki lengur fær um að gegna starfi sínu eins vel og hann vildi. Þar af leiðandi þótti Þingvallan. tími vera kominn til að leita hófanna um kaup á Valhöll, en með þeirri hógværu leið, sem hér er ætlazt til, að farin verði. — Ef svo skyldi fara, að ekki yrðu samningar um kaupin, þá er sú leið eftir sem áður til á komanda hausti að heimila eignarnám, en sem stendur er allt, sem mælir á móti því, að æskilegt sé að samþykkja þá heimild nú.

Hv. þm. Dal. var að víkja að því, að það ætti að koma fram í þáltill., hvernig Þingvallan. hugsaði sér framtíðarskipulag á rekstri gistihússins og öðru fyrirkomulagi á Þingvöllum. Út af því get ég sagt það, að n. taldi ekki tímabært að vera að koma með bollaleggingar um, hvernig það fyrirkomulag ætti að vera í einstökum atriðum. Í fyrsta lagi vegna þess, að kaupin hafa ekki enn farið fram, og í öðru lagi af því, að ætlazt er til, að hér komi fleiri aðilar til greina en ríkisstj. og því sé það sameiginlegt mál þessara þriggja aðila, sem um getur, ríkisstj., bæjarstj. Rvíkur og Eimskipafélags Íslands, að leggja á ráðin um, hvernig framtíðarskipulagið verði, m.a. hefur það komið til tals að reisa nýtt og veglegt gistihús á Þingvöllum, eins og getið var um áðan, og þó að ríkið gæti eitt staðið straum af þeim kostnaði, þá finnst Þingvallan. hitt miklu réttara, að þessir aðilar standi allir að þessum málum á Þingvöllum. Af þessu getur hv. þm. Dal. séð, að hér er ekki um neinn ríkisrekstur að ræða af hálfu Þingvallan., — hún vill einmitt leggja á móti því, að sú leið verði farin. Mætti jafnvel leigja út rekstur gistihúsanna stuttan tíma í einu. En einstakir liðir í rekstrarfyrirkomulaginu verða að sjálfsögðu að bíða, þangað til gert hefur verið út um kaupin á Valhöll.