18.11.1942
Sameinað þing: 1. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í B-deild Alþingistíðinda. (37)

Rannsókn kjörbréfa

Forsrh. (Ólafur Thors):

Ég skal verða þess minnugur, þegar þessi skýrsla kemur út, að það skal verða tekið til greina, sem þessir hv. þm. fara fram á, að hún ber með sér, hvað orðið hafi af síldarmjölinu. Ég held, að ég muni rétt, að viðskiptan. og Búnaðarfélagið töldu, að bændur mundu þurfa milli 6 og 6500 mál. Ég held, að það sé líka rétt, að til hafi verið 8–8200 smál., m.ö.o. verulega miklu meira en áður hafði verið selt, auk þess var til yfir 2000 tonn af fiskimjöli, sem að dómi margra jafngildir síldarmjöli, og sumir vilja það heldur. Ég held, að næringargildi þess sé minna, en ég man, að frá Vestmannaeyjum komu ákveðnar óskir um að fá eingöngu fiskimjöl, en ekki síldarmjöl. Þarna eru um 11 þúsund tonn í staðinn fyrir þau 6 þúsund, sem Búnaðarfélaginu og viðskiptan. héldu, að þyrfti. Talsvert af þessum pöntunum munu verksmiðjurnar hafa verið búnar að afgreiða að fullu, þegar stj. fékk að vita, að verzlununum höfðu borizt meiri pantanir en venjulega. Þá voru þegar gerðar ráðstafanir til að tryggja, að allir gætu fengið svo og svo mikinn hluta af því, sem þeir höfðu pantað. Þetta skal allt koma berlega í ljós, þegar skýrslan kemur út, og skal ég gera sem ég get til þess, að hún komi út svo fljótt sem unnt er.