22.03.1943
Sameinað þing: 33. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í D-deild Alþingistíðinda. (3712)

157. mál, strandferðabátur fyrir Austurland

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég er með brtt. á þskj. 554 við þessa till. til þál., og er hún á þá leið, að í stað þess að heimila ríkisstj. að kaupa eða byggja skip fyrir Austfirði, 100 smálestir að stærð, þá heimilast henni að fá tvö strandferðaskip, 300–400 smálestir hvort, annað fyrir Vesturland og hitt fyrir Austurland.

Sú hugmynd að byggja eitt 100 smálesta skip fyrir Austurland virðist vera á misskilningi byggð. Það er svipuð stærð og vélskipið Þormóður var, sem fórst nú fyrir skömmu. Ætti það eitt að vera nægilegt til þess að fyrirbyggja, að slíkir farkostir verði gerðir út til strandferða. Þar að auki er það ósk viðkomandi manna, að þetta skip verði útbúið með 20 sætum fyrir farþega og 10 rúmum, en slíkum útbúnaði mun ekki vera hægt að koma fyrir í svona litlu skipi.

Ég hygg, að strandferðir við Ísland hafi aldrei verið eins góðar og fyrir 50 árum, en þá voru tvö skip, annað fyrir Austurland og hitt fyrir Vesturland. Enda þótt mikið hafi verið um framfarir á ýmsum sviðum hér á síðari árum, þá er þó frekar spor aftur á bak, hvað þessi mál snertir, og það er sízt spor fram á við að fara að byggja 100 smálesta skip, þegar vitað er, að framtíðin gerir meiri kröfur í þessum málum.

Ég vona, að hv. þm. geti fallizt á brtt. mína, því að hún er á sanngirni byggð. Að vísu er ekki hægt að framkvæma þetta strax; það þarf mikinn undirbúning, ekki sízt á þessum tímum, þegar efniviður allur í skip jafnt og annað er lítt fáanlegur. Ég hygg, að hv. þm. geti gert það upp við sig, að sú leið, sem ég legg til, að farin verði, sé skynsamleg.