22.03.1943
Sameinað þing: 33. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í D-deild Alþingistíðinda. (3714)

157. mál, strandferðabátur fyrir Austurland

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hv. þm. Barð. Hann hefur flutt brtt. við þetta frv., sem fer fram á það, að það verði einnig byggt eða keypt sem hann kallar strandferðaskip fyrir Vestfjörðum, og að þessi tvö skip, sem byggð verði eða keypt, verði 300–400 smálestir í staðinn fyrir einn 100 smálesta strandferðabát.

Það sæti ekki vel á okkur, sem flytjum þessa þáltill., að vera á móti því, þó að einhverjir væru meira stórhuga og vildu gera meira fyrir þann landshluta, sem við Austfirðingaþm. erum fyrir, heldur en við höfum gert till. um. Og það er ekki meining mín að gera það. En ég vil benda hv. þm. Barð. á það, að mér fannst koma fram hjá honum ofurlítill misskilningur um það, hvernig hugsað væri að nota þennan strandferðabát a.m.k. við Austurland. Við höfum ekki hugsað okkur, að þessi bátur taki að sér ferðir frá Rvík og austur, heldur yrði aðeins notaður innan fjórðungsins í ferðir þar milli fjarða og gæti komið mjög viða við. Það væri reynt að hafa hann ekki stærri en að, að hann gæti komið mjög viða við, en væri þó sæmilegur farkostur. En við höfum hugsað okkur, að jafnt fyrir því yrði að leggja mikið kapp á það eins og áður að fjölga ferðum stærri skipa frá Rvík til Austfjarða eða frá Rvík kringum land austur fyrir til Akureyrar og aftur til baka. Ég verð að láta í ljós nú eins og áður, að ég tel sæmilega séð fyrir samgöngunum við Austurland, ef strandferðaskip, eins og Esja t.d., gæti gengið stöðugt frá Rvík og austur fyrir, t.d. til Akureyrar og til baka aftur, og síðan verið í sambandi við hana bátur til flutninga innan fjórðungsins álíka og hér er gert ráð fyrir. Ef ætti að hafa þann bát stærri, yrði einnig að taka það til greina, að hann yrði ekki miklu dýrari í rekstri og ekki svo þungt skip í vöfum, að það gæti ekki komið við á mjög mörgum stöðum, en að það gæti sem bezt fullnægt þörfinni fyrir flutning á vörum og farþegum innan fjórðungsins.

Hv. þm. Barð. sagði, að strandferðirnar hefðu aldrei verið í eins góðu lagi eins og fyrir 50 árum. Og mér skilst, að hann með brtt. sinni ætla að koma þeim í það horf, því að þá hefðu verið í förum hér tvö skip kringum landið, sem gengu annað vestur fyrir og hitt austur fyrir land og ég hygg, að oftast hafi mætzt á Akureyri. Þau voru nokkur hundruð smálestir hvort. En hér er verið að ræða um allt annan þátt strandfereðanna, nefnilega að flytja vörur og farþega aðeins innan fjórðunganna, flóabátaferðirnar. Og ég tel alls ekki séð fyrir þörfum Austurlands og Vesturlands, ef þau landsvæði ættu að búa við þær samgöngur einar að hafa aðeins tvö 300–400 smálesta skip, sem gengju frá Rvík og til annarra landshluta. En mér virðist hv. þm. Barð. hafa blandað saman stærri ferðunum og hinum smærri. Það getur verið, að hann hafi gert það út frá samgöngum Vestfjarða, og getur verið, að hann hugsi sér, að þessi skip haldi uppi samgöngum við Rvík alla leið, og þá þyrfti stærri skip en 100 smálestir.

Ég vildi benda hv. fjvn. á að athuga, hvort ekki sé hægt að afgreiða þetta mál á þá lund, að veita ríkisstj. heimildir til þess að kaupa eða láta byggja strandferðabáta fyrir Austurland og Vesturland án þess að tiltaka stærðina að svo stöddu. Og þá yrði gengið úr skugga um það, hvort Alþ. vildi ekki ganga inn á þá braut, sem hér yrði farið inn á í strandferðamálunum. En þá yrði tekin upp ný stefna í þeim málum, eins og ég hef áður rætt hér.

Ég hygg hins vegar, að hv. alþm. annarra héraða ættu að gefa því gaum, að þessir tveir landshlutar, Austfirðir og Vestfirðir, hafa mjög mikla sérstöðu að þessu leyti, og gæta þess að blanda ekki inn í þetta mál öðrum málum heldur en þeim, sem við athugun dæmast að vera hliðstæð þessu máli, en leggja ekki stein í götu málsins, ef þeir á annað borð eru hlynntir þessari stefnu, með því að tengja hér allt of margt við á fyrsta stigi, því að það gæti orðið til þess, að málið fengi ekki þá afgreiðslu, sem meiri hl. Alþ. í raun og veru hallaðist að. Og mæli ég þetta sumpart að gefnu tilefni frá hv. þm. Ak. Það er enginn vafi á því, að þessir tveir landshlutar, Austfirðir og Vestfirðir, hafa alveg sérstöðu í þessu efni og eru alverst settir um samgöngur. Og mér virðist fara vel á því, að þar sé byrjað á að framkvæma þessa stefnu, ef hún verður ofan á. Og því fer alls fjarri, að við Austfirðingar viljum ekki stuðla að sams konar úrlausn fyrir Vestfirðinga nú á þessu stigi. Við teljum ekki illa farið, að það tvennt haldist í hendur, en aftur vafasamara, hvort rétt sé að blanda nokkru fleira hér inn í á þessu stigi málsins.

Það má vel vera, að heppilegra væri að hafa ekki þá stærð á Austfjarðabátnum, sem hér er til tekin. En ef stærðin er ótiltekin, væri hægt við athugun að ákveða hana nánar síðar. En ég vildi aðeins vekja athygli hv. þm. Barð. á því, til hvers báturinn er ætlaður. Honum eru ekki ætlaðar lengri ferðir en innan fjórðungsins, a.m.k. ekki að staðaldri.