22.03.1943
Sameinað þing: 33. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í D-deild Alþingistíðinda. (3715)

157. mál, strandferðabátur fyrir Austurland

Gísli Jónsson:

Ég vil benda hv. 2. þm. S.-M. (EystJ) á það, að það er dálítil reynsla fengin hér á landi um rekstrarafkomu þessara tveggja stærða báta, sem hér hefur verið rætt um, annars vegar Laxfoss, sem er 250–300 smálestir, og hins vegar 100 smálesta flutningaskips. Laxfoss er eina skipið á Íslandi, sem hefur skilað öllu fé aftur til ríkissjóðs, sem það hefur fengið þar að láni, og hefur verið rekið og er rekið enn þann dag í dag styrklaust, og það er eingöngu fyrir það,hve þaulhugsað það fyrirtæki var í upphafi. Það er sama, hvort skipið hefur farið til Breiðafjarðar, Vestmannaeyja, Austurlands eða hvert annað, sem skipið hefur farið, að svo að segja hver einasta ferð, sem það hefur farið, hefur gefið peninga. Aftur á móti er fengin reynsla um Fagranes, sem er 100 smálesta bátur, sem hefur gengið til Vestf jarða. Það þarf stórkostlegan styrk til þess að geta rekið það skip, sem kemur mjög mikið til af því, af hversu óheppilegri stærð skipið er. Ég sé ekki, að okkur hv. 2. þm. S.-M. greini mikið á, því að ef þingið samþykkir mína brtt. og framkvæmdir í þessum málum verða í samráði við viðkomandi héruð, t.d. um það, hve stór skip verði byggð eða keypt, þá mun koma í ljós, þegar farið verður að rannsaka það mál, að það verða stærri skip en 100 smálesta, sem verða valin til þessara samgangna. Hins vegar er það ekki meining mín, að Austurlandi verði séð fyrir samgöngum einungis með svona skipi eins og ég tala um í brtt. minni. En ef á að uppfylla þær kröfur, sem gerðar eru af Austfirðingum um að flytja vörur og farþega með svona skipi, er það þá mögulegt? Það álít ég ekki, að ganga megi út frá miklu betri rekstrarafkomu hjá 300–400 smálesta skipi heldur en 100 smálesta. Ég teldi því mjög misráðið að kaupa eða byggja svona bát fyrir samgöngur á Austfj. Vænti ég þess því, að brtt. mín verði samþ.