22.03.1943
Sameinað þing: 33. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í D-deild Alþingistíðinda. (3716)

157. mál, strandferðabátur fyrir Austurland

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. — Ég er nú ekki Austfirðingur. En samt sem áður hygg ég og þykist hafa nokkurn veginn vissu fyrir því, að Austfirðingar eru þeir menn á landi hér, sem búa við verstar samgöngur. Hér liggur fyrir till. um að bæta úr þessu samgönguleysi þeirra, sem verst eru settir með tilliti til samgangnanna um fjórðunga eða milli staða þar. Svo er það eins og venjulega, þegar stungið er upp á einhverju til hagsbóta fyrir einstök héruð, að þá eru fleiri, sem vilja vera með, og hér er komin fram till. um það að bæta við till. eða útvíkka hana, þannig að hún nái, í þó nokkuð breyttri mynd, til Vestfjarða.

Ég vil nú í þessu sambandi algerlega taka undir það, sem hv. þm. Ak. (SEH) sagði hér áðan, að ef farið er að útvíkka þessa till. á annað borð, þá álít ég, að það sé fyllsta þörf á því að taka samgöngumál Norðlendinga einnig til athugunar, hvort þingið geti ekki gert einhverjar ráðstafanir til þess að bæta þar úr. Hv. aðalflm. þessarar tillögu tók að nokkru leyti undir till. hv. þm. Barð. og sagði, að Austfirðingar og Vestfirðingar hefðu í þessum efnum alveg sérstöðu í landinu. Þetta kann að vera að nokkru leyti rétt á sumrin, því að það er ekki komið slíkt vegasamband til Vestfjarða, að það sé sambærilegt við það vegasamband, sem Norðurland hefur á sumrin. En ég verð alveg hiklaust að halda því fram, að í venjulegum vetri er a.m.k. austurhluti Norðurlands — fyrir austan Öxnadalaheiði — verr settur, að því er samgöngur snertir, heldur en Vestfirðir. Þá er ekki að ræða um samgöngur á landi og yfirleitt ekki um aðrar samgöngur heldur en Esju. Og ég veit ekki betur en Esja komi á Vestfirði alveg eins og á Norðurlandshafnir.

Ég tel, — og mér finnst ekki ástæða til að rökstyðja það nánar —, að Austfirðingar búi við verstar samgöngur allra manna á landi hér, kannske að undan teknum Skaftfellingum. Ég er því alveg reiðubúinn til þess að samþykkja þessa þáltill., sem hér liggur fyrir, óbreytta. En ef á annað borð er farið að útvíkka hana þannig, að hún eigi að verða fleirum til hagsbóta en Austfirðingum, þá vil ég mjög eindregið taka undir ummæli hv. þm. Ak. um það, að þarfir fleiri manna séu þá athugaðar.

Ég vil að vísu, að þessi þáltill. fari til n., þó að ég hafi ekki heyrt beina till. um að vísa henni þangað, og ég vildi mjög mælast til þess, að hv. þm. Barð. léti ekki sína brtt. koma undir atkv. nú við fyrri umr. málsins, heldur fengi sú n , sem um þetta mál fjallaði, hana til athugunar eins og sjálfa þáltill. Og þá vildi ég jafnframt mælast til þess, að sú n., sem fær þetta mál til athugunar, tæki ekki einasta til athugunar þáltill. og brtt. við hana, sem fram er komin, heldur það atriði einnig alveg sérstaklega, hvort rétt væri, að Alþ. nú í tilefni af þessu máli hefði sérstök afskipti af samgöngumálunum víðar en á Austfjörðum. Ef svo væri, þá reyndi n. að meta þær ástæður, sem yfirleitt eru fyrir hendi um samgöngur í landinu.

Ég skal svo til áréttingar aðeins taka fram, að nú um langan tíma hafa ekki verið nokkrar samgöngur milli Akureyrar og Rvíkur aðrar en Esjuferðirnar og þá sjaldan, að fossarnir koma til Akureyrar, en það er nú ekki oft, sem þeir koma, og það eru alveg hrein vandræði á ferðum um samgöngur til Norðurlandshafna. Það var getið um það í blöðum hér fyrir mjög stuttu síðan, að það væri orðinn beinn vöruskortur á Norðurlandi — fyrir utan það, hvað erfitt er fyrir fólk að komast leiðar sinnar, sem þarf að ferðast milli þessara landshluta.

Þetta, sem ég segi hér, er ekki á nokkurn hátt til þess að spilla fyrir þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir. Ég viðurkenni alveg fyllilega, að Austfirðingar þurfa fremur hjálpar í þessu efni heldur en Norðlendingar, þó að illar séu samgöngur við Norðurland nú. En það er aðeins þetta. Ef farið verður að róta við þessari þáltill. og útvíkka hana, þá vil ég, að fleira sé tekið til greina heldur en enn hafa komið fram prentaðar till. um.