12.04.1943
Sameinað þing: 41. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í D-deild Alþingistíðinda. (3721)

157. mál, strandferðabátur fyrir Austurland

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. — Fyrir alllöngu síðan fluttum við allir þm. Austurlands þáltill. á þskj. 527, um heimild fyrir ríkisstj. til að láta byggja eða kaupa strandferðabát fyrir Austurland. Tilefni þessarar till. var ekki sízt það, að þá fyrir skömmu höfðu komið saman bæjarstjórarnir á Norðfirði og Seyðisfirði og sýslumenn beggja Múlasýslna og rætt þetta vandamál. Þeir komust á þeim fundi að þeirri niðurstöðu, sem Austfirðingar höfðu áður bent á, að sérstaklega væri heppilegt að fá góðan strandferðabát, sem héldi uppi samgöngum innan fjarða í beinu sambandi við strandferðaskipin. Þeim málum er nú þannig háttað, að Austfirðingar hafa engan fjarðabát haft nema örstuttan tíma á árinu, því að styrkurinn frá ríkissjóði hefur verið svo lítill, að ekki hefur verið hægt að hafa þar bát nema örstuttan tíma, þegar nauðsynin hefur verið mest. Við, sem flytjum þessa till., höfum einnig kynnt okkur, að hún er í samræmi við vilja þeirra manna, sem hafa með höndum samgöngumál ríkisins, svo sem forstjóra Skipaútgerðar ríkisins. Hann hefur tjáð sig því samþykkan, að sú stefna yrði tekin, að reynt yrði að koma upp góðum strandferðabáti, sem gæti tekið að nokkru leyti af aðalstrandferðaskipunum ýmsar smærri hafnir. Enn fremur lýsti hann yfir, að hann teldi sjálfsagt, að þessi bátur yrði eign ríkisins og algerlega stjórnað af ríkinu. Hins vegar er vitað mál, að þetta hefur verið þannig í framkvæmdinni, að ein eða tvær sýslur í landsfjórðungi hafa reynt að koma upp báti og fengið rekstrarstyrk frá ríkinu. Það hefur gefizt misjafnlega, og hefur komið fram í þinginu, að menn væru óánægðir með þessa báta, þeir kæmu ekki að tilætluðum notum, og a.m.k. ekki notum, sem samsvaraði hinum mikla rekstrarkostnaði þeirra.

Þessi þáltill. okkar hefur mætt mjög misjöfnum skilningi hér í þinginu. Fyrst bar á því á þ., að fram komu till. um fleiri báta, fyrir Vesturland, síðan fyrir Norðurland o.s.frv. Þegar samgmn. beggja deilda fengu málið til umsagnar, þá vildu þær mæla með, að till. yrði breytt allmikið á þá lund, að stj. undirbúi smiði eða kaup á fjórum strandferðaskipum af hæfilegri stærð. Í fjvn., sem einnig hefur fjallað um þetta mál, komu fram mjög misjafnar skoðanir á, hvernig bregðast skyldi við þessari till. okkar. M.a. kom sú skoðun fram, að ríkissjóður ætti aðeins að leggja fram ákveðinn hluta af byggingarkostnaði slíkra báta, en ekki eins og till. gerir ráð fyrir að byggja þá að öllu á sinn kostnað. Sumir nm. lýstu yfir því, að þeir vildu jafnvel fresta málinu og láta athuga framtíðarskipulag flóabátaferða um allt land og slá málinu á frest, en við tveir í fjvn., hv. 2. þm. N.-M. og ég, lýstum yfir, að við værum óánægðir með slíka afgreiðslu málsins. Við álitum, að þar sem álit forstjóra Skipaútgerðar ríkisins var á þá lund, að nauðsynlegt væri að breyta til og taka upp þá skipan, að ríkið ætti bátana og ræki þá í sambandi við strandferðaskipin, þá væri í fyllsta máta rétt að samþ. nú eitthvað afgerandi um þetta mál og á þá leið, að samþ. yrði að byggja einn ákveðinn bát fyrir þann landshluta, sem hefur hans mest þörf, og þann landshluta, sem Imfur staðið að því að koma þessu máli inn í þingið að þessu sinni.

Till. meiri hl. fjvn. um það að breyta hinni upprunalegu þáltill. okkar á þá leið, að ríkisstj. verði aðeins gefin heimild til að láta undirbúa byggingu allt að fjögurra strandferðabáta, sú till. er algerlega um að slá málinu á frest, því að þótt stj. sé heimilt að undirbúa smíði allt að fjögurra strandferðabáta, þá er engu slegið föstu um smíði Austfjarðabátsins og heldur ekki, hvort hlutaðeigendur eigi að leggja fram fé til bátsins eða hvort ríkið eigi að leggja fé fram. Því höfum við borið fram brtt. á þskj. 695, sem slær því alveg föstu, að Austfjarðabáturinn skuli ganga fyrir. Með því að samþ. þessa brtt. held ég, að Austfirðingar hafi fengið jákvætt svar við því, sem þeir ætlast til, sem sé því, að ríkið vilji stefna að því, að það eigi þessa flóabáta, en ekki einstök sýslufélög, og enn fremur, að stj. sé falið að reyna að undirbúa smíði Austfjarðabáts. Ég skil vel, að hv. þm. vilji koma inn í till. ákvæðum um, að þeirra landshlutar fengju að fylgjast til jafns við Austfirði og ekki yrði tekið fram á neinn hátt, að Austfjarðabáturinn skuli ganga á undan hinum, en það má öllum vera ljóst, að ekki verða byggðir í einu bátar fyrir alla landsfjórðungana, og það er ekki aðeins skoðun okkar, heldur líka margra hv. þm., sem hér hafa talað, að þörfin sé jafnvel allra mest þar eystra og því sé réttlátt að byrja á smíði þess báts og sjá til, hvernig þetta fyrirkomulag gefst.

Það væri kannske ekki úr vegi að geta þess, um leið og talað er um samgönguvandræði fyrir Austurlandi, að t.d. nú eru liðnir tveir mánuðir síðan ferð hefur fallið úr höfuðstaðnum til Austurlands. Ég veit vel, að samgöngum milli höfuðstaðarins og Vesturlands og Norðurlands er ábótavant, en ég er viss um, að þetta hefur ekki komið fyrir hjá þeim eins og okkur á Austurlandi, að tveir mánuðir líði milli ferða þangað úr höfuðstaðnum. En þetta er venjulegt fyrirbrigði, að tveir mánuðir líði á milli ferða austur. Og einu ferðirnar þangað eru ferðir Esju, en þó mun Esja hafa farið jafnmargar ferðir til Vesturlandsins eins og Austurlands. Súðin kom til Austurlands einu sinni á síðasta ári, og Fossarnir koma þangað aldrei. Þegar við Austfirðingar erum einnig verr settir með flóabátaferðir heldur en aðrir, þá er ekki nema eðlilegt, að lagt sé á það nokkurt kapp, að það verði þegar hafizt handa um smiði slíks báts, þó að við viljum auðvitað, að það sé jafnframt tekið fram, að ríkið reyni einnig að eignast svona báta fyrir hina landsfjórðungana. En hvað, sem ofan á verður í þessu efni, þá vildi ég sérstaklega mælast til þess, að þingið vildi gera einhverja samþykkt, sem gæti í raun og veru sagt eitthvað um þessi mál, en ekki á þann veg, eins og meiri hl. hv. fjvn. hefur lagt til, að slá engu föstu, heldur drepa málinu á dreif og fresta því. Því að það er sama sem að fresta málinu, að ríkisstj. sé falið að undirbúa smíði fjögurra strandferðaskipa. Ég vænti þess því, að brtt. okkar hv. 2. þm. N.-M. verði samþ.