12.04.1943
Sameinað þing: 41. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í D-deild Alþingistíðinda. (3722)

157. mál, strandferðabátur fyrir Austurland

Eysteinn Jónason:

Við flm. þessarar þáltill. um strandferðabát fyrir Austurland erum nú ekki ánægðir með þá leið, sem hv. fjvn. bendir á. Okkur þykir sú afgreiðsla, sem hv. fjvn. gerir ráð fyrir, of óákveðin, þar sem þar er ekki tekin nein stefna í málinu, heldur látið nægja að fela ríkisstj. að undirbúa byggingu nokkurra báta eða skipa, án þess nánar sé tilgreint, hvernig skuli fyrir komið rekstri skipanna eða bátanna, eftir að þau eða þeir hafa verið byggðir. Enn fremur er þar ekkert tilgreint, í hvaða röð leysa skuli úr þeirri þörf, sem vitanlega er fyrir hendi viðar en í einum landsfjórðungi um bættar samgöngur á sjó. Við þm. Austfirðinga höfum þess vegna verið í ráði með hv. 6. landsk. (LJós) og hv. 2. þm. N.-M. (PZ) um samningu þeirrar brtt., sem þeir flytja hér, og leggjum áherzlu á, að hæstv. Alþ. geti fallizt á hana. Það er sá munur á henni og brtt. hv. fjvn., að í brtt. þeirra austfirzku þm. úr fjvn. er tekin stefna í málinu, sú stefna, að það skuli koma upp þessum strandferðabátum fyrir fjórðungana og Austfirðinbafjórðungur skuli koma fyrstur í röðinni, þegar farið verði að leysa strandferðavandamálin. Það hafa verið færð svo mörg rök fyrir því hér á hæstv. Alþ., að það sé eðlilegt, að þar verði bætt úr þessari þörf fyrst, vegna þess að þar er þörfin brýnust, að ég ætla engu við það að bæta nú. Hins vegar álít ég, að mþn. sú, sem hér er farið fram á, að skipuð verði, eigi fullan rétt á sér, þó að þessi brtt. frá þeim Austfirðingunum verði samþ. Því að þótt úr þessu yrði bætt fyrir Austfirði, þá væri eftir að gera ráðstafanir um útfærslu þessa máls í öðrum atriðum.

Mér finnst því bezta lausnin á þessu máli sú að samþ. brtt. þeirra tvímenninganna úr hv. fjvn. á þskj. 695 og síðan till. um mþn., þar sem settir eru menn til ráðuneytis ríkisstj. um frekari framkvæmdir.