29.03.1943
Sameinað þing: 34. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í D-deild Alþingistíðinda. (3740)

150. mál, jarðeignarmál kaupstaða, kauptúna og sjávarþorpa

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Það er í raun og veru þrennt, sem eftir þessari þáltill. er ætlazt til, að rannsakað verði. Í fyrsta lagi það, sem þeir hafa minnzt á hv. þm. Siglf. og hv. þm. Borgf., viðvíkjandi landi til ræktunar kringum kaupstaði, kauptún og sjávarþorp, og er þar ekki um að ræða annað en fyllri ákvæði heldur en nú eru í l. um það atriði. Og það má segja, að þessi þáttur, sem þáltill. er um, sé þegar að nokkru leyti leystur. Og það má líka segja, að til þess að víkka það út, sem í þessum þætti felst, og þó að fleiri breyt. væru gerðar í þessu efni, þá þarf ekki að skipa um það sérstaka n. En n. er ætlað meira verksvið en þetta, nefnilega að rannsaka, hvernig hægt sé að koma í veg fyrir óréttmæta verðhækkun á þessum löndum, sem leigð eru eða seld til ræktunar fyrir íbúa þessara staða. Hér er ekki talað um óréttmæta verðhækkun almennt, heldur aðeins á þessum löndum, en því sleppti hv. þm. Borgf., og það er alls ekki lítið atriði.

Ég skal taka dæmi úr þorpi hér á landi. Það hefur fengið til afnota allmikið svæði af landi, sem ríkið hefur umráð yfir. Þessu landi hefur verið skipt og það leigt út í smáskákum. Og þar er nú komin mikil ræktun. Í þessu þorpi eru nú 130 kýr, sem byggist að mestu á þessari ræktun, en áður en þessi ræktun hófst, voru þar milli 10 og 20 kýr. En þorpið, sem þarna er milliliður, leigir þessi lönd út fyrir 5 sinnum hærra gjald heldur en það borgar ríkinu fyrir þau. Þetta og önnur slík dæmi þarf að rannsaka eftir þessari till. og finna, hvernig komið yrði í veg fyrir svona verðhækkun. Og það er verkefni, sem ég, eins og hv. 2. þm. S.-M., býst við, að þurfi að athuga af mönnum úr öllum flokkum, því að það lítur út fyrir, að til séu menn í sumum flokkum, sem ekkert vilja láta gera í þessu, heldur láta einstaka menn og bæjarfélög græða á slíku okri.

Svo er enn eitt verkefni, sem þessari n. er ætlað að athuga, hvernig tryggja megi, að verðhækkun á löndum og lóðum, sem verða kann á fyrr nefndum stöðum beint eða óbeint vegna opinberra framkvæmda, verði almenningi að notum, en hverfi ekki inn í eignir einstaklinga, sem síðan láti almenning vaxta hana. Árið 1940 bárum við nokkrir Framsóknarþm. fram till. til þál. um undirbúning ráðstafana út af verðhækkun á fasteignum fyrir sérstakar opinberar ráðstafanir. Var sú þáltill. orðuð þannig, eins og hún fyrst kom fram á þskj. 30, að Alþ. ályktaði að „skora á ríkisstj. að láta rannsaka, á hvern hátt verði komið í veg fyrir það eða takmarkað með löggjöf, að einstakir menn njóti gróða af þeirri verðhækkun, sem verður á fasteignum þeirra fyrir sérstakar opinberar aðgerðir.“ Til samkomulags við þá, sem ekkert vildu gera í málinu, var þessu breytt eftir till. allshn. þannig, að í stað orðanna „á hvern hátt .... takmarkað“ kom: „hvort ekki væri ástæða til að koma í veg fyrir eða að takmarka“. Sumir munu hafa samþ. þetta í því trausti, að ríkisstj. gerði ekkert í þessu máli, en sumir aftur í því trausti, að hún gerði eitthvað í því. Þeir, sem vildu, að stjórnin gerði ekkert í því, urðu ekki fyrir vonbrigðum. Og það virðist svo enn, að einhverjir séu þeirrar skoðunar, að með því að láta ríkisstj. hafa þetta með höndum, þá verði ekkert í þessu máli gert, og þess vegna vilji þeir ekki láta þingið skipa þessa n. Og sumir, sem þó eru málinu hlynntir, eins og hv. þm. Siglf. (ÁkJ), álíta, að ekki þurfi að skipa n. til þess að rannsaka þetta, heldur megi gera það á annan hátt.

Ég er ákaflega hlynntur því, að þessi rannsókn fari fram og ráðstafanir verði gerðar til þess að fyrirbyggja þessa óeðlilegu verðhækkun og gróða einstakra manna af þessu. Og ég gekk í allshn. inn á þessa tilhögun, sem um getur í brtt. n., eftir að ég vissi, að ríkisstj. mundi skipa n. í málinu og láta rannsaka málið, ef þáltill. yrði samþ. Þess vegna held ég, að það sé óhætt að samþ. brtt. allshn., því að þótt ríkisstj., sem áður var, léti ekki rannsaka þetta, hafa sumir hæstv. ráðh, tjáð mér, að hæstv. ríkisstj. muni nú skipa þessa n., ef þáltill. verður samþ. með þessari breyt., og sé ég ekki ástæðu, enn sem komið er, til annars en að treysta orðum núv. hæstv. ríkisstjórnar.

En enda þótt ég hafi gengið inn á þetta til samkomulags í n., hefði ég heldur kosið, að þá1tili. hefði verið samþ. óbreytt. Sumir hafa vonazt til þess, að með því að samþ. þessa brtt. yrði ekkert gert í málinu. Þá von hef ég kannske tekið frá þeim mönnum. En það verður að hafa það. En á þessu byggist mitt fylgi við þáltill. og brtt.

Sjónarmið manna í flokkum eru svo ólík í þessu efni, að það væri mjög illa farið, ef í þessa n. veldust menn, sem allir hefðu nokkurn veginn svipuð sjónarmið. Í þessa n. þurfa að koma menn, sem standa í sambandi við þingflokkana og geta fært fram þau sjónarmið, sem þar ráða. Og í því trausti, að n. verði þannig skipuð, er ég með brtt.

Ég vil endurtaka það, sem sagt hefur verið hér; að það er alla vega lagað geysimikil þörf á, að þetta sé athugað og tekið sé fyrir það, að hið opinbera skapi mönnum aukna dýrtíð og aukna erfiðleika við að lifa í landinu. Og að hið opinbera leggi í þessu efni kvaðir á einstaka menn, sem eru notendur þessara landa, það á ekki að eiga sér stað, og það þarf að taka fyrir það, og menn verða að koma sér saman um leiðir til að gera það.