29.03.1943
Sameinað þing: 34. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í D-deild Alþingistíðinda. (3741)

150. mál, jarðeignarmál kaupstaða, kauptúna og sjávarþorpa

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. — Hæstv. félmrh. svaraði fyrirspurn minni að nokkru leyti og að nokkru leyti ekki. Hann sagði, að sér fyndist eðlilegt, að skipun þessarar n. færi fram á þann hátt eins og ég vildi, en hann sagðist ekki geta svarað neinu um þetta fyrir hönd hinna ráðh., aðeins fyrir sjálfan sig. Þannig verður ekki, áður en þetta mál verður afgreitt, séð, hvort þessi n. verður skipuð eða þá hvernig. Ég sé því ekki ástæðu til þess, að hæstv. Alþ. breyti þessari þáltill. á þann hátt, sem brtt. er komin fram um. Og mér virðist ekki ástæða til þess, að hæstv. Alþ. skjóti sér undan því að taka afstöðu til þessa máls, nema gengið verði frá því um leið, að n. verði skipuð og hvernig hún verði skipuð.

Ég mæli því með því, að brtt. allshn. verði felld. Mér finnst það ekki vera rök í málinu, að þessi brtt. sé til samkomulags við þá, sem ekkert vilja gera. Ég sé ekki ástæðu til að leita samkomulags við þá. Ef þeir eru fleiri í þ., sem ekkert vilja gera í þessu efni, þá verður ekkert gert. Séu þeir færri, verður það gert, sem meiri hl. vill. Þetta skilst mér vera eina hreina afgreiðslan, sem til er á málinu. Vil ég því skora á hv. alþm. að vera ekki með neina loðmullu í þessu, heldur samþykkja þál.-tillöguna eins og hún er komin fram.