19.02.1943
Sameinað þing: 27. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í D-deild Alþingistíðinda. (3756)

104. mál, aukauppbót á styrki til skálda, rithöfunda, vísindamanna og listamanna

Flm. (Barði Guðmundsson):

Herra forseti. — Það mun hafa verið í öndverðum des. í vetur, að stj. listamannasambandsins sendi ríkisstj. erindi sitt um það, að á styrk þann, er hér ræðir um, yrði greidd aukauppbót hliðstæð þeirri, sem starfsmönnum ríkisins er greidd samkv. þál. frá 28. ágúst 1942. Eftir því, sem ég hef heyrt, tók ríkisstj. þessu mjög vel, en ekkert varð af framkvæmdum, enda veik hún úr valdasessi litlu síðar, en núv. ríkisstj. mun hafa litið svo á, að ekki væri fært að veita þessar uppbætur án þess að leita fyrst vilja Alþ. Þess vegna er till. á þskj. 173 fram komin, og virtist menntmn. Nd. þetta vera það sanngirnismál, að hún féllst á að flytja till. inn í þingið. Í grg. eru nokkrar ástæður till. taldar. Ég geri ráð fyrir, að þessari till. muni vísað til fjvn., og vil vænta þess, að afgreiðslu hennar verði hraðað mjög. Það er vitað, að sökum þess, hve fjárl. verða seint afgr., hafa margir þeir menn orðið hart úti, sem styrks þessa eiga að njóta, þar eð þeir verða að biða hans langt fram yfir venjulega tíma. Ef þessi þáltill. næði nú skjótu samþykki, væri hægt að ráða nokkra bót á þessum vandkvæðum og bæta úr brýnustu þörf ýmissa þeirra listamanna, sem í vandræðum eru vegna hins mikla dráttar, sem orðið hefur á afgreiðslu fjárlaganna.