01.04.1943
Sameinað þing: 37. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í D-deild Alþingistíðinda. (3761)

104. mál, aukauppbót á styrki til skálda, rithöfunda, vísindamanna og listamanna

Frsm. meiri hl. (Jónas Jónsson):

Fjvn. hefur klofnað um þetta atriði, og meiri hl. hélt því fram, eins og stendur í áliti okkar, að það væri ekki eftir venjum Alþ. og undangengnum ráðstöfunum rétt að verða við þessari ósk. Fjvn. hefur ekki yfirleitt unnið að launahækkunum eins og þessari. Það er ríkisstj. mál, og er ekki kunnugt, að geti átt við styrki eins og þetta. Auk þess greiddi fjmrh. þessum mönnum dýrtíðaruppbót, og er það verulegur ávinningur fyrir þá, því að þeir voru á 15. gr. með engri dýrtíðaruppbót.

Ég vil taka það fram, að í ár hefur að ýmsu leyti verið góðæri fyrir listamennina miðað við það, sem áður hefur verið. Þannig hefur t.d. einn maður úr þessum hópi nú embætti, er gefur honum 10 þús. kr. í tekjur, fyrir aðra andlega vinnu fær hann 12 þús. kr., og mér er kunnugt um, að fyrir eina þýðingu, sem hann gerði, fékk hann 4 þús. kr. Það mega því teljast ólíkar kringumstæður hjá þessum mönnum og áður var.

Enn fremur er hið sama að segja um málara og myndhöggvara. Menningarsjóður hefur nú orðið meiri eignir en áður til kaupa á listaverkum. Þannig er einnig geta Menntamálaráðs til listaverkakaupa orðin miklu meiri en hún áður var, og af þessu má ráða það, að kaupskapur við listamenn er nú orðinn miklu meiri en hann áður var og aðstaða þeirra breytt til batnaðar. Í nál. er t.d. getið um einn málara, Kjarval, sem seldi fyrir um 50 þús. kr. á síðustu sýningu sinni, og þar af keypti landið fyrir 6 þús. kr. Þetta sýnir, að markaður er góður fyrir verk listamannanna og breytt er viðhorfið, og er það líka skýring á, hvað litlar tekjur listamennirnir höfðu áður samanborið við það, er þeir hafa nú.

Um þá till., sem hér liggur fyrir, er það að segja í stuttu máli, að þessi aukauppbót, sem farið er fram á, á ekki við þá, sem styrkja njóta, heldur við þá, sem eru í fastri þjónustu og fá laun sín samkvæmt því. Það er t.d. ekki hægt að kalla mann eins og Kjarval í fastri þjónustu ríkisins, þó að hann njóti þaðan styrks sem viðurkenningu fyrir list sína.

Tel ég því rangt að samþ. þessa þáltill.