01.04.1943
Sameinað þing: 37. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í D-deild Alþingistíðinda. (3764)

104. mál, aukauppbót á styrki til skálda, rithöfunda, vísindamanna og listamanna

Frsm. meiri hl. (Jónas Jónsson):

Út af því, sem hv. 2. landsk. og reyndar líka hv. 5. landsk. þm. kom einnig að í sinni ræðu, að því hefði verið haldið fram, — og ég sé enga ástæðu vera til þess að leyna því, að það var ég, sem leyfði mér að halda því fram, að það hefði ekki verið greidd aukauppbót á styrki skv. 18. gr. fjárl. —, út af því vil ég taka það fram, að mér blátt áfram datt ekki í hug, að hv. fyrrv. fjmrh. mundi láta sér til hugar koma að gera slíkt, því að þingið hafði ekki á neinn hátt gefið minnstu heimild til þess, og því var það blátt áfram villa af hv. fyrrv. stj., því að hún hafði greitt þetta í heimildarleysi, og því sízt betra að halda þeirri villu áfram. Ef fjvn. hefði farið að gefa eftir í þessu efni, þá hefði hún í verki farið að tjá sig samþykka fyrir sitt leyti þeim samningum, er fyrrv. stj. upp á sitt eindæmi fór að framkvæma launahækkanir, hækka laun presta um 5000 kr. og annað eftir því. Slík aðferð til launahækkana hafði aldrei áður þekkzt. Ég lagði meira upp úr gætni ráðh. en svo, að hann færi að gera á móti eða annað en það, sem hv. Alþingi hafði fyrir lagt.

Þá þótti mér það dálítið athyglisvert, að hv. 5. landsk. þm. lét sér tíðrætt um listamennina sem „styrkþega“ og virtist gera sér far um að nota það orð, eftir því sem hann gat. Og kemur ekki þarna dálítið fram skoðun hans á afstöðu listamannanna í þjóðfélaginu, að það er tamast í munni hans að kalla þá styrkþega, ölmusumenn, þó að þeir njóti heiðurslauna frá Alþ.? En meiri hl. fjvn. getur samt sem áður ekki litið á þessa menn sem fasta starfsmenn ríkisins, af því að þeir eru það ekki, og því telur hann það ekki rétt að samþ. þessa aukauppbót til listamanna, af því að sú uppbót var ákveðin til fastra starfsmanna ríkisins.