01.04.1943
Sameinað þing: 37. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í D-deild Alþingistíðinda. (3766)

104. mál, aukauppbót á styrki til skálda, rithöfunda, vísindamanna og listamanna

Barði Guðmundsson:

Hv. þm. S.-Þ. var að deila á mig fyrir það, að ég leyfði mér að tala um listamennina sem styrkþega. Ég læt mér þá ásökun í léttu rúmi liggja, einkum þar sem orðið styrkur er notað í öllum opinberum gögnum um það fé, sem þjóðin lætur listamönnum sínum í té.

Þá var þessi sami hv. þm. að tala um það, að stj. hefði greitt aukauppbótina á 18. gr. styrkina í óleyfi. En ég var ekkert að ræða um, hvort þetta hafi verið gert með leyfi Alþ. eða í óleyfi, heldur aðeins benti ég á þá staðreynd, að uppbótin hefði verið greidd, og tók því sérstaklega fram, að listamennirnir, sem áður hlutu laun á 18. gr. fjárl., hefðu að sjálfsögðu hlotið aukauppbót á styrki sína, ef Alþingi, en ekki Menntamálaráð, hefði annazt úthlutun skálda- og listamannalauna. Það er þetta, sem er mergur málsins.