06.04.1943
Sameinað þing: 39. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í D-deild Alþingistíðinda. (3796)

161. mál, síldarmjöl til fóðurbætis

Þorsteinn Þorsteinsson:

Hv. þm. Mýr. tók fram sumt af því, sem ég þurfti að segja. Ég taldi sjálfsagt að hafa báða liðina í till. Síldarmjölskaupendum er það mjög mikil nauðsyn að vita í tæka tíð um mjölverðið, því að pantanir þeirra geta alveg farið eftir því. Þáltill. er bending til ríkisstj. um þá nauðsyn. Þá var það skoðun mín, að nú ætti e.t.v. fremur að taka eingöngu tillit til kostnaðarverðs en áður. Hv. þm. Ísaf. hefur lýst yfir því, að verksmiðjurnar hafi hlotið stórgróða, og ætti þeim þá að vera stætt að láta síldarmjölið mun lægra verði en markaðsverð kann að reynast, og er það mjög í anda lagaákvæðanna að miða þá aðeins við kostnaðarverðið. Væri nú seinni liður brtt. felldur niður, yrði að skilja það svo, sem Alþ. vildi ekki síður miða við markaðsverðið, og það teldi ég stórspilla tillögunni.