12.04.1943
Sameinað þing: 41. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í D-deild Alþingistíðinda. (3820)

164. mál, framtíðarafnot Reykhóla

Eysteinn Jónsson:

Er mál þetta var til fyrri umr. hér í Sþ., benti ég á, að ekki væri nein þátttaka ætluð heiman að í þessari n. til þess að fjalla um framtíðarráðstafanir Reykhóla. Benti ég einnig á, að úr þessu þyrfti að bæta, og tók hv. 3. landsk. þm. undir það, sem og er 1. flm. þessarar þáltill. Þess vegna bjóst ég við, að hv. allshn. mundi taka þetta til greina og leggja til, að fulltrúar sýslu og hrepps yrðu einnig kjörnir í n., en mér til mikillar undrunar hefur hún ekki gert það. Og enn meira undrandi varð ég að heyra það af ræðu hv. þm. Barð., að ætla má, að það sé af frumkvæði hans, sem þetta hefur ekki verið tekið til greina. Hv. þm. Barð. virðist hafa illan bifur á því af einhverjum óskiljanlegum ástæðum, að menn úr hans kjördæmi séu skipaðir í þessa n. Þá virðist hann sjá draug í hverju horni. Þetta er mér alveg óskiljanlegt.

Hv. þm. var að segja, ef horfið væri að þessari uppástungu, að það gæti orðið til þess að málið færi út úr þeim farvegi að vera skóli Barðstrendinga. Mér er nú erfitt að skilja, hvað hann á við með þessu, en það verð ég að segja, að ekki sýnir hann kjósendum sínum mikið traust með þessu. (JakM: Hann var ekki kosinn einróma). Veit ég það, en af meiri hlutanum þó. — Þá var hann einnig að tala um, að um væri að ræða einhverja flokkshagsmuni, ef n. yrði skipuð mönnum úr héraðinu. Það er mér með öllu óskiljanlegt, hvernig hann getur reiknað það út. Það getur þá ekki verið um annan flokk að ræða en þann, sem mundi kallast Barðstrendingaflokkur, og einkennilegt mætti þykja, ef hv. þm. Barð. færi að hafa á móti honum.

Það verður ekki fram hjá því gengið, að þetta hefur snert óþægilega taugar hv. þm., að þátttaka kæmi heiman að úr sýslunni. Hann var að tala um, að erfitt væri fyrir þá, sem að heiman yrðu skipaðir í n., að fara hingað suður til nefndarstarfa. En honum hefur líklega ekki dottið í hug, að þessi störf færu fram í sýslunni sjálfri. Þarf n. endilega að starfa í Rvík? — En ég verð að segja, að það sé hæpinn fyrirsláttur að telja öll tormerki á því, að fulltrúar frá Barðstrendingum komi suður til Rvíkur og dveljist nokkra daga við nefndarstörf. Þegar allt kemur til alls, munu þau rök léttvæg fundin hjá þeim, sem á annað borð hafa einhvern áhuga á málefninu. Ég verð að segja, að mér finnst þetta freklega móðgandi í garð Barðstrendinga. Ég vil leyfa mér að benda hv. þm. á, að það er mesta fásinna að vera alltaf á móti öllu, sem andstæðingar í stjórnmálum bera fram. Það er blátt áfram hlægilegt. Ég vonast eftir, að hv. þm. Barð. haldi þessu ekki til streitu, enda er honum alls ekki stætt á því að meina kjósendum sínum þátttöku í þessari n.

Ég benti á þetta við fyrri umr., og ég get ekki tekið því þegjandi, að þessari uppástungu minni, sem á fullan rétt á sér, sé ekki gaumur gefinn og hún sé virt að vettugi af þeim manni, hv. þm. Barð., sem einna helzt ætti að vera henni samþykkur.

Ég vænti þess, að hv. þm. sjái, að hér er um réttlætismál að ræða, og vona, að hv. Alþ. sjái svo um, að einn maður verði skipaður eftir tilnefningu hreppsnefndar Reykhólahrepps í n. og annar eftir tilnefningu sýslun. Austur-Barðastrandarsýslu, hvort sem hv. þm. Barð. sér að sér í þessu máli eða ekki.