01.04.1943
Sameinað þing: 37. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í D-deild Alþingistíðinda. (3834)

167. mál, skipasmíðastöðvar í Reykjavík og strandferðir

Flm. (Bjarni Benediktsson):

Við höfum orðið sammála um það nokkrir þm., hv. þm. S.-Þ., hv. 3. landsk. þm. og ég, að flytja till. um að skipa n. til að íhuga tvö atriði, sem má segja, að séu sitt hvors eðlis, en lúta bæði að siglingum landsmanna og eru náskyld, þ.e. betri skilyrði til skipasmíða og strandferða. Það hefur löngum verið um það rætt, að við yrðum að stuðla að því, að meiri skipasmíðar og viðgerðir gætu farið fram innan lands. Það hefur mikið farið í vöxt, að viðgerðir væru framkvæmdar hér á landi, og reynt hefur verið að bæta skilyrði til þess, en þó er hæpið, að hægt sé að keppa þar við önnur lönd á venjulegum tímum.

Um smíðar er það að segja, að hér hafa aðeins verið smíðaðir litlir bátar, en auðvitað væri að því mikill hagur, ef hægt væri að smiða stærri skip, einkum strandferðaskip. Það er játað af öllum, að strandferðir eru ekki í svo góðu lagi sem vera þyrfti, og hafa verið fyrir þinginu till. um að bæta úr því, þó að sitt hafi sýnzt hverjum, og er ljóst, að ef gera á ráðstafanir til umbóta í framtíðinni, er æskilegra, að búið sé að hugsa málið frá grunni og koma sér niður á fyrirkomulag, sem um nokkra hríð gæti staðizt, í stað þess að hlaupa til að gera eitthvað til bráðabirgða, sem tefur fyrir framtíðarúrlausn.

Ég vona, að Alþ. verði sammála um, að þetta mál þurfi frekari undirbúning og samþ. till.