12.04.1943
Sameinað þing: 41. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í D-deild Alþingistíðinda. (3837)

167. mál, skipasmíðastöðvar í Reykjavík og strandferðir

Frsm. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti. — Allshn. hefur haft til meðferðar. þessa þáltill. á þskj. 627 og orðið sammála um að leggja til, að hún verði samþ. Að vísu voru sumir nm. ekki viðstaddir, en þeir, sem mættir voru, voru allir sammála. N. duldist þó ekki, að þessi till. er tvískipt, og það má segja, að það sé ekki alls kostar sambærilegt, að sömu mennirnir eða sama n. fjallaði um þetta hvort tveggja, þar sem í fyrsta lagi á að athuga skilyrði fyrir byggingu og rekstri skipasmíðastöðvar í Rvík, en í öðru lagi á að athuga, hvernig komið verði allsherjarskipulagi á strandferðir landsins. Það er alls ekki hægt að láta sér dyljast það, að það orkar mjög tvímælis, hvort þeir menn, sem hafa vit á öðru þessu, geti einnig ráðið fram úr hinu. En í því trausti, að hæstv. ríkisstj. takist að velja menn þannig í þessa mþn., að þeir hafi vit á hvoru tveggja og hafi tök á að kynna sér það, þá leggur allshn. til, að till. verði samþ. óbreytt.

Það er aðeins eitt atriði, sem ég vildi minnast á. Allshn. hefur skilið þáltill. þannig, að aðeins eigi að vera 4 menn í n. Síðasta mgr. segir að vísu, að ríkisstj. skuli skipa einn mann form. n. Allshn. hefur skilið þetta svo, að ríkisstj. eigi að skipa fyrir form. einn hinna fjögurra manna, sem eiga að vera í n. samkvæmt tilnefningu þingflokkanna. Þetta verður að álítast réttur skilningur, ef því verður ekki mótmælt, að nm. verði fjórir.

Með þessu hef ég lokið framsögu minni og legg til, að þáltill. verði samþ.