12.04.1943
Neðri deild: 97. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í D-deild Alþingistíðinda. (3846)

178. mál, útgáfa á Njálssögu

Flm. (Helgi Jónasson):

Herra forseti. — Ég flyt á þskj. 690 ásamt tveimur öðrum þm. till. til þál. um útgáfu Njálssögu. Eins og þessi þáltill. ber með sér, fer hún fram á það að skora á ríkisstj. að sjá um og greiða fyrir því, að menntamálaráð og Þjóðvinafélagið gefi Njálssögu út nú á þessu ári í vandaðri heimilisútgáfu handa félagsmönnum sínum. Eins og kunnugt er, hafði Þjóðvinafélagið ákveðið að gefa út Íslendingasögurnar í vandaðri útgáfu handa félagsmönnum sínum, og hefur Fornritafélagið séð um þá útgáfu. En þessi útgáfa var að miklu leyti vísindalegs eðlis og hefur ekki verið gefin út nema í fáum eintökum, sem voru stór og nokkuð dýr, og komst þessi útgáfa því ekki inn á nema rá heimili í landinu.

Ég skal nú rekja orsakir þessarar þáltill. Þegar kom fram á árið 1941 var það auglýst í dagblaðinu Vísi, að í ráði væri að gefa út nýja útgáfu af Laxdælasögu með breyttri stafsetningu, felldar yrðu niður allar ættartölur o.fl. Strax þegar þetta varð hljóðbært, mætti það mikilli mótspyrnu, bæði í blöðum og manna á milli. Það mun nú svo með okkur Íslendinga, að við erum fátækir og fámennir, og við eigum lítinn veraldarauð, en við eigum einn auð, það eru fornbókmenntir okkar. Það mun vera nær eins dæmi, að svo fámenn þjóð sem við erum eigi slíka gimsteina sem fornritin eru. Það er þess vegna viðkvæmt mál, ef nú ætti að fara að gefa út fornrit okkar breytt að efni og málfari frá því, sem þau hafa áður verið. Ég get hins vegar vel fallizt á það, að stafsetningin geti verið eins konar smekksatriði, en þó er alveg óþarfi að breyta henni, því að hver einasti Íslendingur getur lesið fornrit okkar eins og þau hafa verið prentuð upp á síðkastið, sáralítið breytt frá handritunum, og lesið þau sér til fyllsta gagns. — Þessi útgáfa á Laxdælu varð til þess, að Alþ. samþykkti árið 1941 l. um það að banna, að gefin væru út íslenzk fornrit, eldri en frá 1400, af öðrum en Fornritafélaginu, nema því aðeins, að leyfi menntmrn. kæmi til. Þessar umr. og samþykkt frv. á Alþ. varð til þess, að sá, sem stóð að útgáfu Laxdælu, Halldór Kiljan Laxness, gaf út yfirlýsingu í dagblaðinu Visi. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég hef tekið að mér að gefa út Laxdælasögu, færða til hinnar svo kölluðu stjórnarráðsstafsetningar í landinu. — Að því fráskildu, að upp verður tekin hin fyrirskipaða stafsetning stjórnarráðsins, kemur vitanlega ekki til mála, að orðfæri textans, stíl eða máli verði í nokkru breytt í útgáfu minni á Laxdælasögu.

Reykjavík, 14. okt. 1941.

Halldór Kiljan Laxness.“

Menn vonuðust eftir því, að óhætt mundi að treysta þessari yfirlýsingu. En þrátt fyrir það, að þessi yfirlýsing kæmi fram, þá skeður það, að útgáfan, þegar hún kemur, er hin andstyggilegasta í alla staði, heilum köflum sleppt, orðfæri og orðaröð breytt, pappír og prentun, allt hið lélegasta, sem hægt er að hugsa sér. Mjög lélegur formáli fylgir bókinni, og er þar gefið í skyn, órökstutt, að þetta sé eins konar lygasaga, sem ekkert mark sé á takandi, o.s.frv. En þegar svona fór nú hjá þessum rithöfundi, sem er talinn mjög fær í sinni grein og er mjög góðum hæfileikum búinn sem rithöfundur, hvernig mundi þá fara fyrir öðrum, sem ekki eru slíkum hæfileikum búnir? — Það er auðséð, að þetta var gert til þess að græða á því fé, en ekki til þess að auka gildi íslenzkra bókmennta. Nú skeður það einkennilega fyrirbrigði, að fyrir fáum kvöldum er það auglýst í útvarpinu, að nú eigi að fara að prenta Njálu. Það er sama útgáfufyrirtækið og sami maðurinn, sem stendur fyrir þessari útgáfu, og stóð fyrir útgáfu Laxdælu. Það vakti þó meiri undrun, að menntmrn. hafði veitt leyfi til þessarar útgáfu, þrátt fyrir lagasetninguna frá 1941 og þrátt fyrir það að útgáfa Laxdælu hafi verið fordæmd af kennurum við norrænudeild háskólans, sem eru í þessum efnum dómbærastir allra Íslendinga. Ég vil nú, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp álit það, sem þessir menn hafa gefið út um Laxdæluútgáfu Halldórs Kiljans Laxness:

„A. Meðferð máls. Við samanburð á þessari útgáfu og útgáfu þeirri, er hún byggist á, kemur í ljós, að fjölmörgu því máli, sem á engan hátt verður talið til stafsetningar, er breytt: a. Ýmiss konar breytingar eru gerðar á orðmyndum. b. Orðum er sleppt. c. Orðum er bætt inn. d. Skipt er um orð. e. Orðaröð er breytt. f. Bætt er inn heilum setningum eftir útgefandann.

Á fundi menntamálanefndar h. 22. þ. m. voru færð mörg dæmi þessu til sönnunar, og teljum við þarflaust að endurtaka þau hér, enda auðvelt hverjum þeim, er nennir, að ganga úr skugga um þau. Hins vegar viljum við taka það fram, að við teljum allar þessar breytingar til skemmda á máli og stíl sögunnar.

B. Meðferð efnis. Meðferð sögunnar er á þá leið, að stórfelldar efnisbreytingar hafa verið gerðar á henni: a. Einstökum setningum er sleppt. b. Heilum köflum er sleppt, t.d. á einum stað 5 kapítulum. e. Einstakar setningar eru færðar til. d. Kaflar eru færðir til. e. Samdar eru setningar inn í textann, þar sem útgefanda hefur þótt nauðsyn til bera.

Allar þessar breytingar rýra stórlega efni sögunnar og breyta svip hennar, svo sem gerð var grein fyrir á fyrrnefndum fundi.“

Þrátt fyrir það, að Laxdæluútgáfan hefur fengið þennan dóm, og þrátt fyrir það, að þessi útgáfa er búin að fá dóm í undirrétti, þrátt fyrir þetta allt saman, þá veitir hæstv. dómsmrh. þessum manni nú leyfi til þess að fara að gefa út Njálssögu. Það er að vísu rétt, að hæstv. dómsmrh. hefur ekki brotið l., en með þessu hefur hann traðkað á vilja Alþ. og mikils meiri hl. þjóðarinnar, það þori ég að fullyrða. Það er ekki hægt að vænta þess, að þessi maður, Halldór Kiljan Laxness, þó að hann geti, fari nokkuð betur með Njálssögu heldur en hann fór með Laxdælu 1941 þrátt fyrir þá yfirlýsingu, sem hann gaf þá. Sú yfirlýsing sýnir það ótvírætt, að það er ekki hægt að treysta honum.

Ég veit, að eins og nú er komið; er ekki hægt að stöðva þetta verk. Það var á valdi ráðh., en hann hefur ekki gert það. En það er eitt, sem hægt er að gera, og það er það, sem farið er fram á í þessari þáltill., og það er, að á þessu ári verði gefin út ný útgáfa af Njálu, eins og við viljum hafa hana og eins og þjóðin vill hafa hana, en ekki skrumskælda eins og Laxdælu.

Ég hef ekki meira um þetta að segja, en vona, að hv. d. samþykki þessa till.