12.04.1943
Neðri deild: 97. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í D-deild Alþingistíðinda. (3847)

178. mál, útgáfa á Njálssögu

Dómsmrh. (Einar Arnórsson):

Herra forseti.— Við þáltill., sem hér liggur fyrir á þskj. 690, er í sjálfu sér ekkert sérstakt að athuga. Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti því, að Njálssaga sé gefin út á þessu ári í vandaðri heimilisútgáfu handa félagsmönnum Þjóðvinafélagsins. En þáltill. er dálítið óákveðin. Það er skorað á stj. að greiða fyrir því, eftir því sem þarf, að menntamálaráð og Þjóðvinafélagið gefi Njálssögu út. Hér er ekki fengin nein grg. fyrir því, hvernig tillögumenn hugsa sér, að greitt verði fyrir þessu. Hugsa þeir sér það með fjárframlögum? Ef það er leyfi til þess að gefa Njálssögu út, stendur væntanlega ekki á því leyfi. En svo veit ég ekki, hvernig það er, hvort menntamálaráð hefur nokkuð ákveðið um útgáfuna, og gæti skeð, að það mætti skilja þetta svo, ef svo er ekki, að stj. eigi að hvetja menntamálaráð til þess að taka slíka ákvörðun. Ég get hugsað mér þann skilning lagðan í það, en þessu mun frsm. gefa skýringu á. Ég geri ráð fyrir, að þetta sé alveg á valdi menntamálaráðs og Þjóðvinafélagsins, jafnvel þótt þing og stj. geti skorað á þessar tvær stofnanir og geri það, getur stj. a.m.k. ekki skyldað menntamálaráð til að gera þetta. Það væri fremur, að þingið kynni að geta það. Forsvarsmaður þessarar stofnunar er hér í þessari d. og getur gefið nánari upplýsingar um þetta. Ég held ég þurfi ekki að tala meira um till. á þskj. 690. Hún vekur í sjálfu sér ekki neinar deilur milli mín og frsm., en það eru bæði í grg. till. og í ræðu hv. 1. flm. ýmis atriði, sem ástæða' er fyrir mig að tala um og svara, því að þar eru ýmsar ákærur á hendur mér. Réttara sagt, það er ákæra á hendur mér fyrir að hafa gefið tilteknum manni, Halldóri Kiljan Laxness, leyfi til að gefa út Njálssögu. Ég skal nú þegar taka það fram, að ég er frsm. sammála um nokkur atriði í ræðu hans, sammála um það, að í útgáfu þessara rita eigi ekki að sleppa úr, a.m.k. ekki án þess að geta þess og ekki breyta orðum eða stytta frá því, sem stendur í því handriti, sem lagt er til grundvallar. Þessu er ég yfirleitt sammála, og það er það, sem 1. gr. þessara nýju l. á við, að það megi ekki breyta efni, meðferð eða málblæ, ef breytingum er svo háttað, að menning eða tunga þjóðarinnar líði tjón af. Eigi má heldur sleppa kafla úr riti, nema þess sé greinilega getið í útgáfunni. Frá þessu atriði er ekki hægt að gefa neina undanþágu, og þetta er atriði, sem hægt er að kalla vandvirknisatriði við hverja útgáfu. Sá, sem brýtur ákvæði 1. gr., getur orðið sekur við 3. gr., svo framarlega sem dómstólarnir telja ákvæði 1. gr. þannig, að hægt sé að dæma eftir því. Ég hef ekki gefið undanþágu frá 1. gr. Sá, sem tekur sér fyrir hendur að gefa út Íslendingasögurnar, verður að meta, hverrar vandvirkni er þörf. Annars verð ég að segja það, að þessu má náttúrlega ekki blanda saman við stafsetningu í sjálfu sér, því að auðvitað er hægt að skemma rit með hvaða stafsetningu sem þau eru gefin út. Þeir, sem gefa rit illa út, hvort sem það er á þessu sviði eða öðru, eiga á hættu, að fræðimenn og almenningur dæmi þá, og það er sá dómur, en ekki dómur dómstólanna, sem hefur þýðingu um það, hvort rit er gefið vel eða illa út. Ég vil endurtaka það, svo að það skilji allir, að ráðuneytið hvorki getur eða vill gefa undanþágu frá 1. gr. l. um vandvirkni í útgáfu, hvorki í þessu riti né öðrum.

Þá kem ég að hinu atriðinu. Eins og frsm. ýtarlega tók fram, hefur ráðh. fulla heimild til þess l. samkvæmt að gefa rétt til þess að gefa út Njálu og önnur fornrit. Leyfi þetta þurfti ekki að binda neinu skilyrði um stafsetningu. L. segja það ekki, en það má binda það. Það er sjálfsagt hugsun ýmissa að hafa sérstaka stafsetningu á þessum ritum, að gefa þau út með fornri stafsetningu samræmdri. — Þessi stafsetning, samræmda, forna, er ekki gömul, og ég býst við, að einum fræðimanni á 19. öld á þessu sviði megi þakka mikið þessa stafsetningu, því að stafsetningu eftir handritum er ekki hægt að búa til, því að handritin, bæði af Njálu og öðrum ritum, eru gerð af mismunandi mönnum frá mismunandi tímum, rituð með mismunandi stafsetningu frá 13., 14., 15. og jafnvel 16. og 17. öld. Ég lit svo á, að það sé ekki mikil ástæða til að binda útgáfuna eða leyfi til hennar því skilyrði, að fylgt sé svo kallaðri samræmdri stafsetningu. Það er varla svo mikil söguleg ástæða fyrir því, og ég hygg, að það sé áreiðanlegt, að allmikið af ungu fólki telur sér aðgengilegri lestur þessara rita með þeirri stafsetningu, sem það nú lærir í skólunum, rituðum á því máli, sem er hinu talaða máli nokkru nær en það, sem nú er á ritunum. Mér finnst það ætti fremur að vera til þess að hvetja fólk til þess að lesa þessi ágætu rit, og það væri heldur til þess að kynna þau meðal þjóðarinnar, að þau væru gefin út með þeirri stafsetningu, sem almennt er notuð og fólk þekkir betur. En um það atriði má deila endalaust, eins og frsm. tók fram. Ég hef ekki bundið leyfið skilyrði um stafsetningu, og ég er ekki einn um þessa skoðun, eins og margir vita. Hinn ágæti fræðimaður Björn Bjarnason frá Viðfirði segir, að það sé lítil ástæða til að vera að gefa út ritin með gamaldags stafsetningu, og ég veit, að ýmsir góðir menn hafa líka skoðun.

En það er það atriði, sem vegur þyngst í huga flm., það er, að þetta leyfi var veitt nafngreindum manni, Halldóri Kiljan Laxness, sem áður hefur gefið út Laxdælu. Ég hef ekki sagt eitt orð til þess að verja meðferðina á þeirri útgáfu. Hins vegar hefur hann gefið út aðra sögu, Hrafnkels sögu Freysgoða, sem hann og aðrir kalla Hrafnkötlu í samræmi við nöfn á öðrum Íslendingasögum, og sú útgáfa er að öllu leyti rétt að undantekinni einni breyt., sem ég veit ekki, hvort stafar af vangá. Hann hefur lagt til grundvallar útgáfu Konráðs Gíslasonar frá 1868, og ef til vill hefur þetta atriði verið rangt í þeirri útgáfu, sem hann studdist við. Ég held, að þetta geti komið fyrir alla. Guðbrandi Vigfússyni var fundið það mjög til foráttu á sínum tíma, að hann hefði gefið Sturlungu illa út, bætt inn í og fellt úr. Ég veit ekki, hve mikið það hefur átt að vera, en vafalaust hefur þetta getað stafað af því, eftir hverju hann fór.

Þótt Halldór Kiljan Laxness hafi gefið Laxdælu út með þeim hætti, sem hvorki ég né flm. samþykkjum, og þó að hann hafi gefið út Hrafnkötlu án þess að fá leyfi til þess, þá er spurning, hvort á þeim grundvelli er hægt að leggja bann við, að hann gefi fleiri sögur út. Nú hefur hann l., og eftir 1. gr. má ekki gera breyt., sem valdi því, að efni, blær eða málfæri breytist að svo og svo miklu leyti, en ég get ekki gengið inn á að leggja bann á mann fyrir verk, þótt honum hafi yfirsézt. Ég tel, að almenningsálitið og fræðimennirnir eigi að fella sinn dóm um útgáfu þessa verks, eins og það, hvort skáldsaga er vel samin, kvæði vel orðað, jörð vel setin o.s.frv. Við leggjum ekki bann á útgáfu ljóðabókar, þótt höfundurinn hafi áður gert sig sekan að því að gefa út leirburð. Við leggjum ekki bann á mann að sitja jörð, þótt það hafi orðið horfellir hjá honum. Hann er dæmdur af dómstólunum eða almenningsálitinu, þangað til hann bætir ráð sitt. Bann við framkvæmdum liggur við að lögum, ef hægt er að telja þær hættulegar lífi og limum manna, eins og að láta algerlega óhæfan skipstjóra stýra skipi eða vankunnandi bílstjóra stýra bil. En að banna að gefa út bækur samræmist ekki löggjöf og hugsun manna í landi, þar sem talið er, að fullt ritfrelsi og málfrelsi sé. Við sinnum því máli, þegar þar að kemur. Ef farið er út fyrir mörkin, þessi, sem fagurfræði eða kröfur um vandvirkni gera, skjótum við því undir dóm almenningsálitsins, en leggjum ekki öðruvísi bann á þann mann, sem það gerir, og ef hann gerir það þannig, að dómurinn falli á móti honum, má hann sjálfum sér um kenna, því að þá vill almenningur ekki sjá verk hans.

Annars held ég, að þessi ágætu rit okkar, bæði Njála og önnur, komist aldrei í mikla hættu af því, þótt einhverjir einstakir menn gefi ritin út. Sú einasta hætta, sem yfir þeim vofir, er, að handritin farist, líkt og í brunanum mikla 1728. Hitt er engin hætta, þótt þau séu illa gefin út. Það hefur komið fyrir áður, að Íslendingasögurnar hafa verið illa gefnar út og meira að segja mjög illa, en smekkur almennings hefur ekkert breytzt við það. Það er eins og með heilaga ritningu. Það hafa verið gerðar á henni breytingar, en hún hefur ekki beðið tjón við það, og það held ég, að Passíusálmar Hallgríms Péturssonar hafi komist heilir út úr tilraun Bjarna Péturssonar til þess að breyta þeim.

Það er ofmælt í grg. flm., að það eigi að taka Njálu sömu tökum og Laxdælu. (SvbH: En er það ekki sami maðurinn?). Víst er það sami maðurinn, en jafnvel þótt svo sé, var Laxdæla gefin út, áður en l. voru sett. Við lítum mismunandi augum á þetta, þessi þm., sem greip fram í, og ég. Hann vill leggja bann á þennan mann og fleiri, en ég lít svo á, að það heyri ekki til í okkar þjóðfélagi að leggja slíkt bann á menn. En deilan er ekki um þetta núna, hún gæti orðið endalaus.

Ég held svo, að ekki sé ástæða til að lengja þessar umr. að sinni.