12.04.1943
Neðri deild: 97. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í D-deild Alþingistíðinda. (3849)

178. mál, útgáfa á Njálssögu

Flm. (Helgi Jónasson):

Herra forseti. — Ég þarf ekki að vera langorður. Ég ætla að leyfa mér að svara hv. 5. landsk. (BG) nokkrum orðum.

Hann var að tala um fornritaútgáfuna. Ég hef talað við for seta hennar, og hann er þessu ekki mótfallinn. Það er svo um Njálu, að það mun líða langur tími, þangað til hún kemur út, því að það handrit, sem fornritaútgáfan vill helzt prenta eftir, liggur í Kaupmannahöfn, og það er með fullu samþykki formanns fornritaútgáfufélagsins, að þessi till. er komin fram.

Þá var hann að tala um, að við vildum skaða Halldór Kiljan Laxness. Ég veit ekki til, að ég hafi neitt talað um það, en ég held ekki, að tap, ef það verður, lendi á Halldóri Kiljan Laxness, — það verður annar, sem ber það.

Þetta er í samkomulagi við fornritaútgáfuna, og ég veit ekki betur en menntamálaráð sé búið að samþykkja að gefa út Íslendingasögurnar.

Ég vil þá víkja að hæstv. ráðh. Hann er hneykslaður yfir því, að stj. eigi að hjálpa til, og þykir það koma úr hörðustu átt. En það er fyrst og fremst, að það þarf leyfi ráðh. Nú eru líka örðugleikar með pappír og mikið að gera í prentsmiðjum og erfitt að koma neinu að þar. Við getum búizt við, að stj. geti greitt fyrir þar. Varðandi það, að búið sé að ákveða þetta í menntamálaráði og Þjóðvinafélaginu, get ég upplýst, að það er ekki fullnaðarákvörðun. Félagið hefði ekki komið fram með þetta á þessu ári nema að því gefna tilefni, að það átti að fara að gefa Njálu út af öðrum.

Ég tók það fram í framsöguræðu minni, að það væri smekksatriði á hverjum tíma, hvaða stafsetning væri höfð á Íslendingasögum. Hitt vítti ég og vil forðast, hvað Njálu snertir, að efni væri brenglað og felldar niður svo að segja allar ættartölur. Sögurnar eru ættarsögur, og til þess að geta skilið þær til fulls, verða menn að fylgjast með ættunum og þekkja þær. Fornmenn drápu menn vegna ættartengsla, en ekki að gamni sínu.

Hæstv. ráðh. gat ekki svarað því, af hverju honum fannst liggja svo mikið á með leyfið, þrátt fyrir það, að varhugavert er að treysta yfirlýsingu þessa manns, sem sveik þá yfirlýsingu, sem hann hafði gefið, áður en Laxdæla kom út. Það getur verið, að hann hafi gefið hæstv. ráðh. loforð, en við getum bara ekki treyst því loforði. Það er einkennilegt, að um sama leyti og leyfið er veitt, er Ed. einmitt búin að sýna, að hún vilji frekar herða á l. frá 1941 heldur en hitt. Þess vegna er erfitt að skilja, að hæstv. ráðh., sem er mikill fræðimaður, skyldi láta henda sig slíka skyssu að óþörfu. Þessi útgáfustarfsemi er gróðafyrirtæki viss manns, en ekki til að bæta fornrit okkar eða smekk þjóðarinnar, heldur það gagnstæða.

Að við ætlum að skaða Halldór Kiljan Laxness, er misskilningur, enda býst ég við, að aðrir beri tjónið, ef um tjón verður að ræða. Ég vona, að till. okkar verði samþ. og Alþ. líti sömu augum á málið og það gerði 1941. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp yfirlýsingu 10 þm. í Ed., sem er svo hljóðandi:

„Við undirritaðir alþingismenn lýsum yfir fylgi okkar við þá tillögu um útgáfu Njálssögu, sem borin er fram af þingmönnum Rangæinga og Vestur-Skaftfellinga. Jafnframt er það vilji okkar, að hækkað verði úr ríkissjóði fjárframlag til fornritaútgáfunnar, þannig að hún bíði engan fjárhagslegan hnekki við ráðstöfun þessa og geti haldið áfram starfsemi sinni á sama grundvelli og hingað til.

Páll Hermannsson, Gísli Jónsson, Lárus Jóhannesson, Bernharð Stefánsson, Jónas Jónsson, Þorsteinn Þorsteinsson, Bjarni Benediktsson, Magnús Jónsson, Ingvar Pálmason, Hermann Jónasson.“

Ég vona, að þm. þessarar hv. d. verði ekki eftirbátar þeirra.