12.04.1943
Neðri deild: 97. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í D-deild Alþingistíðinda. (3860)

178. mál, útgáfa á Njálssögu

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. — Ég lít þá svo á, að ræðutíminn sé ekkert takmarkaður nú, enda mun ég halda ræðu mína og veita hv. flm. till. það, sem þeir óskuðu eftir, en það, var umr. um málið.

Þetta mál eða mál svipað þessu hefur mikið verið rætt hér á hv. Alþ., en eigi að síður gefur þessi till. tilefni til umr. Hv. þm. Rang. báðir og hv. þm. V.-Sk. virðast líta svo á, að Njála sé einhver einkaeign þeirra og hætta stafi af því, er einstakir menn gera ráðstafanir til þess að koma þessu riti til allrar þjóðarinnar. Njála er einhver mesti helgidómur í bókmenntum okkar, og mér er ráðgáta, hvers vegna þessir hv. þm. eru að flytja jafnfráleita till. sem þessa hér. Mér finnst undarleg afstaða þessara manna að þjóta upp til handa og fóta, þó að ráðstafanir séu gerðar til þess, að æskulýðurinn fái tækifæri til þess að lesa Njálu á nútímaíslenzku. Ég veit ekki, hvað þetta á að þýða, — eða finnst þeim einhver Wimmer-stafsetning betri íslenzka en sú stafsetning, sem Jónas Hallgrímsson og Þorsteinn Erlingsson notuðu. Um þetta mál var deilt í fyrra, en nú er kominn tími til þess að sýna það, að fornritin eru ekki lakari á nútímaíslenzku. Það hefur gengið nógu erfiðlega að fá íslenzka æsku til þess að lesa fornritin, þótt ekki sé nú farið að hanga í 19. aldar stafsetningu Dana. Það er vel, að hæstv. menntmrh. hefur nú veitt undanþágu frá þessum vitlausu l., sem sett voru um þessi efni í fyrra, og gefið leyfi til þess, að Njála megi koma út á nútímaíslenzku. Í fyrsta skipti, sem Njála var gefin út á Íslandi, þá var hún á nútímastafsetningu. Ég er hissa á þessum páfatrúarmönnum hér, að þeir skuli ekki vilja uppræta þessa Njálu, og þá með sömu aðferðum og fyrirmynd þeirra, Hitler, notar, að brenna hana. Þessi útgáfa Njálu var sízt til þess að spilla íslenzkum fornritum, heldur gerði hún mikið til þess að kynna þessa perlu íslenzkra bókmennta fyrir þjóðinni. Hvað á allur þessi bægslagangur að þýða? Ég sé, að hv. flm. till. og hæstv. forseti hafa engan frið fyrir aðskotadýrum úr öðrum d., sem vaða hér um og reyna að hraða málinu sem mest. Hver er ástæðan til alls þessa gauragangs? Jú, hún er sú, að þegar einn ágætismaður réðst í að gefa fornritin út á nútímastafsetningu, þá var hlaupið upp og reynt að hindra það, og það af mönnum, sem gátu gefið út fjölda rita á kostnað ríkisins. En hvernig notuðu þessir menn aðstöðu sína í því efni? Á meðan þeir gátu skrifað skólabækur á nútímastafsetningu, þá var ekkert við það að athuga, en svo þegar þeim gafst tækifæri til þess að ausa fé úr ríkissjóði, svo að tugum þúsunda kr. skiptir, þá dettur þeim ekki í hug að gefa út Íslendingasögurnar eða eitthvað eftir Einar Benediktsson. Nei, í stað þess grafa þeir upp einhverjar þýðingar á hundleiðinlegum enskum ævisögum og eldgömul handrit og dreifa þessu út meðal þjóðarinnar, allt rit, sem enginn kærir sig um að lesa, en fornritin láta þeir eiga sig. Þegar þeir ráðast í að gefa út Jónas Hallgrímsson, þá er það gert þannig, að það er aðalútgefandanum til stórskammar. Formálinn, sem ritaður er fyrir þeirri útgáfu, er eigi síður til skammar.

Ef einhver óbreyttur borgari hefur áhuga á að gefa út fornritin með nútímastafsetningu, þá er þotið upp, l. trompað í gegnum Alþ. og þetta athæfi fordæmt í blöðum svo vikum og mánuðum skiptir. Ég veit ekki, hvað þessi bægslagangur á að þýða. Og nú á svo að gera tilraun af hv. þm. S.-Þ., sem manna mest hefur sýnt íslenzkum bókmenntum fjandskap, að fjandskapast við þessa fyrirhuguðu útgáfu á Njálssögu. Það er vitað mál, að þessi útgáfa verður bæði vönduð og ódýr og á leið til allrar þjóðarinnar.

Eitt er athugandi í útgáfu fornritanna, og það er, að hafa þau myndum prýdd og fá beztu málara okkar til þess að sjá um það. Norðmenn hafa gefið út nokkrar Íslendingasögur með myndum í alþýðuútgáfu, og slíkt væri hægðarleikur að gera hér. Þessi útgáfa, sem till. fer fram á, er óskiljanleg. Hún á að vera frábrugðin útgáfu Halldórs Kiljans og einnig öðruvísi en útgáfa Fornritafélagsins, en ekkert hefur verið skýrt, hvernig hún eigi að vera. Okkur, sem alizt höfum upp við Íslendingasögurnar, útgáfu Sigurðar Kristjánssonar, finnst hún ágæt útgáfa, og hví skyldi þá þurfa að gefa út aðra sérstaka útgáfu fyrir flm. þessarar till.? Er útgáfa Sigurðar Kristjánssonar, sem nóg er til af, ekki fullgóð fyrir hv. þm. Rang, og þm. V.-Sk.? Það er einkennilegt, hvað þessir menn eru mikið fyrir að bannfæra allt og alla. Það hefur legið við undanfarin ár, að rit sumra íslenzkra skáldsagnahöfunda yrðu bönnuð hér. Hv. þm. S. Þ. fannst sjálfsagt að banna útgáfu á ritum Halldórs Kiljans hér á Íslandi, heldur ættu þau að koma út í Moskvu. Það, sem fyrir þessum mönnum vakir, hlýtur að vera, að þeir vilji leggja hömlur á prentfrelsið í landi þessu.

Núna, þegar hæstv. menntmrh. sýnir sig sem sannan Íslending með því að leyfa útgáfu á Njálssögu með nútímastafsetningu og sýnir sig óháðan þessum málfræðingaræflum, þá er þotið upp og komið fram með till. að einhverri nýrri útgáfu, sem enginn hefur hugmynd um, hvernig eigi að líta út, því að ekki er haft fyrir því að skýra það.

Það er augljóst, að þessir menn vilja umr. um þetta, og þær skulu þeir fá. Um þetta skal verða rifizt, til þess er nógur tími.

Það er svo sem auðséð, að hverju hér er stefnt. Það er verið að stefna að því að festa enn meira í sessi þetta vitlausa bann, sem samþ. var á síðasta þingi. Það á nú að fara að átelja það, ef menntmrh. losar þjóðina við þá smán að búa við þessi l. með því að gefa einum bezta rithöfundi, sem íslenzka þjóðin hefur nokkurn tíma átt, tækifæri til þess að gefa út eitthvað af okkar beztu ritum. Við vitum, hvað mundi koma á eftir, ef þetta bann yrði látið festast í sessi, ef átalið verður að gefa undanþágur frá því, nefnilega það, að þessum mönnum mundi vera bannað að gefa út sínar eigin bækur hér á landi. Það eru ekki nema tvö ár, síðan fyrir þinginu lá till. til þál. og var samþ., sem átti að banna mönnum, sem höfðu sérstakar pólitískar skoðanir, að fá nokkurt starf hjá því opinbera og að njóta styrkja eða heiðurslauna frá því opinbera eða gegnum nokkurt opinbert embætti. Það eru ekki nema tvö ár liðin, síðan sá maður, sem stjórnaði banninu á útgáfu á Íslendingasögum á íslenzkri tungu, var frumkvöðull þessarar þáltill. og þeirrar endemis samþykktar á henni. Og það er ekki nema stutt á milli svona aðgerða og til þess, að hér yrði því komið á, að þessir sömu menn, þ.e. sem hafa vissar pólitískar skoðanir, gætu ekki gefið út rit sín hér á landi, heldur yrðu að fara til Moskvu til þess að gefa þau út. Það yrði þá nákvæmlega það sama eins og gerzt hefur í Þýzkalandi. Að vísu hafa sumir þessir menn verið drepnir þar. Aðrir hafa verið gerðir útlægir og bækur þeirra brenndar og hindrað, að þær yrðu gefnar út þar í landi, svo að þeir rithöfundar hafa orðið að fara til Moskvu eða New York til að gefa þær út. [Frh.]