12.04.1943
Neðri deild: 98. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í D-deild Alþingistíðinda. (3870)

178. mál, útgáfa á Njálssögu

Sigfús Sigurhjartarson:

Ég þakka hæstv. forseta fyrir það, að hann hefur gefið pláss fyrir stutta aths. Ég er ósammála úrskurði hans um ræðutíma, því að þessar umr. mega ekki kallast að hafa orðið langar úr hófi fram, þar sem málinu hefur ekki verið vísað til n. Og sú meðferð er óviðkunnanleg, þegar um svo merkilegt mál er að ræða eins og útgáfu fornritanna. Þess vegna hefði hæstv. for seti átt að vera frjálslyndari og leyfa okkur að tala nokkuð fram eftir nóttu.

Ég ætla að bera fram fyrir spurn til hv. 1. þm. Rang. (HelgJ: Ég er dauður.) Það er ekki, hv. flm. Hv. 1. þm. Rang. er ekki dauður, af því að hann er flm. málsins.

(LJós: Hann vill vera dauður.) Ég skil það vel.

Þessi hv. þm. hefur upplýst það, að ekki væri hægt að gefa út að svo stöddu útgáfu af Njálu eftir vandaðasta handriti, sem til er af henni, af því að það er úti í Khöfn. Hvaða handrit er það, sem á að fara eftir við útgáfu Njálu hans? Þetta handrit í Khöfn mun vera álitið nákvæmasta og bezta handritið af Njálu, og því verður ekki náð. Til hvers ætlar þá hv. þm. að grípa við þessa vönduðu útgáfu? Á að prenta orðrétt útgáfu Valdimars Ásmundssonar, sem hér liggja mörg hundruð eintök af í landinu og kostar 12 kr.? Nú hefur það verið upplýst undir umr., að flm. líta svo á, að þessi þáltill. sé aðeins liður í baráttunni gegn því, að Íslendingasögurnar komi út á nútíma stafsetningu. Nú vil ég biðja hv. 1. þm. Rang. að skýra það fyrir mér og öðrum ófróðum, að hverju leyti þjóðinni stafi hætta af því að gefa Íslendingasögurnar út á nútíma stafsetningu. Þessum hv. þm. hefur láðst það enn sem komið er. Það væri gaman að því. (ÞG: Það væri ekkert gaman að því.) Úr því að það er menningarleg nauðsyn að hans áliti að hindra, að Íslendingasögurnar séu gefnar út á nútímastafsetningu, því gildir þá ekki sama um ljóð sr. Hallgríms Péturssonar og biblíuna og aðrar bækur, sem hafa verið skrifaðar fyrir mörgum öldum á íslenzkri tungu, en hafa fólgið í sér það menningargildi, að þær lifa til þessa dags og hafa verið gefnar út í breyttum útgáfum þannig, að þær hafa verið færðar til nútímamáls og stafsetningar? Ég veit, að þessi elskhugi íslenzkra bókmennta mun nú skýra þetta vel og rækilega fyrir okkur fáfróðum mönnum.

Ég skal svo vera svo hlýðinn og góður við hæstv. forseta að sleppa því að segja margt það, sem ósagt er og hefði þurft að vera sagt, aðeins ef ég fæ svar við þessum spurningum: 1. Hvaða handrit á að hafa til grundvallar hinnar vönduðu útgáfu af Njálu, sem hinn mikli unnandi bókmennta, hv. 1. þm. Rang., er að berjast fyrir, að komi út? 2. Hvaða hætta stafar þjóðinni af því að gefa fornsögurnar út á nútímastafsetningu? Hvers vegna berst hv. 1. þm. Rang. ekki fyrir því, að aðrar bækur, sem líkt stendur á um, sæti þeim sömu örlögum, að bannað sé að gefa þær út á nútímastafsetningu?