03.12.1942
Sameinað þing: 5. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í D-deild Alþingistíðinda. (3883)

3. mál, útvarpsfréttir

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. — Þetta mál var flutt á sumarþinginu síðasta, en var ekki útrætt. Það vakti óskipta athygli íslenzkra farmanna, og hefur fjöldi þeirra síðan látið í ljós við mig, að þeim væri umhugað um, að málið næði fram að ganga á þessu þingi.

Samkv. reglum útvarpsins er það ekki leyft nú að birta aflaskýrslur skipa á Íslandi né heldur söluskýrslur. Það er í samræmi við þær ákvarðanir að birta ekki afkomu veiðiflotans í heild eða afkomu um útflutning og innflutning á vörum til landsins. Slíkt gæti gefið bendingar um ferðir skipa vorra og leitt athygli að ferðum sjómannanna og valdið tjóni á mannslífum og verðmætum. Hvert ógætilegt orð í því sambandi getur ekki aðeins valdið ómetanlegu eignatjóni, heldur líka leitt óbætanlega sorg yfir þjóðina. Ég vil því mælast til þess, þó að aðeins hafi verið ákveðin ein umr. um till., að þeirri umr. verði frestað og till. vísað til meðferðar allshn. Vænti ég, að allshn. afgreiði málið svo fljótt, að till. geti komið til atkvgr. innan skamms og málið orðið útkljáð á þessu þingi.