03.12.1942
Sameinað þing: 5. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í D-deild Alþingistíðinda. (3884)

3. mál, útvarpsfréttir

Atvmrh. (Magnús Jónsson):

Ég ætlaði aðallega að leggja til, að umr. væri frestað og málinu vísað til n. Till. er afar víðtæk eins og hún er orðuð. Hún er ekki aðeins um að forðast að gefa upplýsingar í útvarp um innflutning og útflutning, heldur og um alla afkomu þjóðarinnar. En ég hygg, að það yrði ákaflega erfitt, ef útvarpsstarfsemi er rekin á annað borð í landinu, að komast hjá því, að inn smjúgi slíkar upplýsingar.

Eins og þm. er kunnugt, eru þegar miklar hömlur á fréttaflutningi í útvarpinu. Fyrst og fremst er flutningur veðurfregna alveg bannaður. Þá er einnig bannað að skýra frá nokkru um síldveiðar, og það er merkilegt, hve erfitt er að komast í kringum það, þótt takmarkað sé. Ef t.d. þarf skjótlega að koma boðum út um land, þótt ekki sé nema um úthlutun síldarmjölsins síðastliðið haust, þá er erfitt að koma því fyrir án þess að brjóta settar reglur.

Það er á allra vitorði, að útvarpsfréttirnar eru háðar skoðun þeirra, sem álitnir eru færastir til að meta, hvað stríðsaðilum gæti verið fengur í að vita. Manni gæti virzt, að slík skoðun ætti að vera nógu víðtæk, og það er m.a. atriði, sem n. ætti að taka til athugunar, því að við verðum líka að gæta þess að gera okkur ekki of svipuð einræðisríkjunum í þessu efni.

Það er að vísu erfitt að mæla á móti hörðum ráðstöfunum í þessu efni. Ef illa fer, er erfitt að forsvara, að það hafi ekki stafað af aðgerðum, sem kenna má um þessu eða hinu stjórnarvaldi. Þess vegna fylgir því nokkur ábyrgð að lina á tökunum um þetta atriði. En hinu má ekki heldur gleyma, hversu mikið gagn er að útvarpsfréttunum fyrir allan landslýð.

Í bréfi, sem útvarpsstjóri ritaði Alþ. og n. mun kynna sér, er m.a. bent á hinar opinberu umr. í útvarpi. Það er útvarpað umr. frá Alþ. og umr. fyrir kosningar. Allar þær umr. eru beinlínis um afkomu landsins. Það yrði erfitt að haga umræðum þingflokkanna fyrir kosningar þannig, að ekki yrði skýrt frá afkomu þjóðarinnar.

Ef n. vill mæla með till., álít ég bezt, að henni yrði vísað til stj., sem tæki svo til athugunar, hvað hægt væri að ganga langt, og svo ætti að reyna að binda þetta við ákveðin svið, t.d. síldveiðar, ferðir skipa á milli landa o.s.frv.

Ég veit, að þm. eru að sjálfsögðu allir sammála um að vilja engar upplýsingar gefa, sem geti stefnt neinu í voða, hvorki á sjó né landi, en hins vegar er ástæða til, að mál þetta verði skoðað frá öllum hliðum.