10.02.1943
Efri deild: 52. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í B-deild Alþingistíðinda. (389)

119. mál, verðlag

Frsm. (Pétur Magnússon):

Herra forseti. — Eins og hv. þm. er kunnugt, er þetta frv., sem hér liggur fyrir, borið fram af hálfu hæstv. ríkisstj. Það var fyrst lagt fyrir Nd., var athugað þar af fjhn. og síðan samþ. nær óbreytt. Fjhn. Ed. hefur nú haft frv. til athugunar og er sammála um að mæla með, að frv. nái fram að ganga. Einstakir nm. hafa þó áskilið sér rétt til þess að bera fram eða fylgja brtt. við frv.

Eins og frv. ber með sér, felur það ekki í sér verulegar efnisbreytingar á núgildandi löggjöf um þessi mál aðrar en þær, sem leiðir af l. um innflutning og gjaldeyrismeðferð og l. um viðskiptaráð, að undanteknu því nýmæli, sem um ræðir í 2. gr. frv., um skipun verðlagsstjóra, en hann hefur á hendi framkvæmd verðlagsákvæða og eftirlit með, að þeim sé hlýtt. Ég er þeirrar skoðunar, — og ég hygg, að fjhn. sé það einnig —, að þetta nýmæli sé til mikilla bóta, og það gefur vonir um, að verðlagseftirlitið komi að meiri notum í framtíðinni en það hefur gert hingað til. Mér er það persónulega vel kunnugt, að eftirlitið hefur alls ekki náð tilgangi sínum hingað til. Það hefur að vísu gert allmikið gagn á sumum sviðum, einkum að því er snertir nauðsynjavörur, t.d. kornvörur, kaffi og sykur, sem hefðu áreiðanlega orðið hærri í verði, ef verðlagseftirlitsins hefði ekki notið víð. Um ýmsa aðra vöruflokka gegnir öðru máli. Stafar það af því, að þar eru verðlagsákvæði og eftirlit stórum erfiðara. T.d. má nefna álnavöru alla, þótt þar hafa verið reynt að hafa nokkurn hemil á. Þá eru enn önnur verðmæti, þar sem eftirlitið hefur enn síður komið að gagni, eins og t.d. allur innlendur iðnaður. Ég skal þó ekki fara að rekja ástæður þess, hvers vegna svona hefur tekizt til. En það er vafalaust tilgangur ríkisstj. með því að skipa verðlagsstjóra að reyna nú að bæta úr þessum ágöllum. Hún mun og hafa hugsað sér að velja í þessa stöðu mann, sem hefur víðtæka þekkingu á viðskiptum og vörum. Það er líka mest undir því komið, hvernig tekst til með valið á þessum manni. Ef starfið verður vel skipað, er nokkur von til þess, að ráðin verði bót á ágöllum verðlagseftirlitsins, en það veltur á því, hvort ríkisstj. tekst að fá hæfan mann í stöðuna.

Að öðru leyti mega menn ekki gera sér háar vonir um þessa löggjöf, því að eins og ég tók fram í upphafi, er hún nálega sú sama og við höfum búið við undanfarið og nálega allir viðurkenna, að hafi ekki náð tilgangi sínum.

Að lokum vil ég minnast aðeins á ásakanir þær, sem hafa verið bornar á ríkisstj. og verðlagsnefnd, bæði í blöðum og hér á Alþ., um, að vöruverð hafi verið hækkað ólöglega eftir 18. des. s.l. Þessar ásakanir eru ekki á rökum reistar. Um þetta er hægt að sannfærast með því að fara í gegnum bækur verðlagsnefndar, enda hef ég þar sannfærzt um það, að nefndin hefur ekki hækkað verð á einni einustu vörutegund á þessu tímabili. Ég veit ekki, hvaða ástæður hafa legið þessum getsökum til grundvallar, en þær eru algerlega úr lausu lofti gripnar. Að lokum legg ég eindregið til, að frv. nái fram að ganga.