17.12.1942
Sameinað þing: 10. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í D-deild Alþingistíðinda. (3899)

20. mál, kjarnafóður og síldarmjöl

Ólafur Thors:

Ég heyri, að hv. flm. þessarar þáltill. er móðgaður, af því að ég tók ekki að mér á þessu stigi málsins að rekja og hrekja rökvillur hans lið fyrir lið. Ég vildi ekki gera það, af því að ég vildi ekki taka upp tíma þingsins til þess, enda fátt í ræðu hans, sem hafði við rök að styðjast. Ég held það sé bezt, að ég komi með gögnin og lesi þau upp og láti þau tala fyrir sig sjálf. Hv. 2. þm. N.-M. er hér að hefja árás á stj. fyrir það, að hún skuli ekki hafa látið síldarmjölsverksmiðjurnar standa við þau loforð, sem hann telur, að bændur hafi haft um síldarmjöl. Ég býst ekki við, að hann hafi vit á, hvað séu störf og skyldur ríkisstj. Þegar verksmiðjustj. neitaði að taka á móti frekari pöntunum, þá mæltist ríkisstj. til, að verksmiðjurnar hlýddu lögunum og tækju á móti pöntunum til 1. október. En ríkisstj. á ekki að standa þar eða þar og afhenda síldarmjölið poka fyrir poka. En hún á að reyna að sjá um, að hlýtt sé þeim ákvæðum, sem sett hafa verið.

Þessi þm. er í þjónustu Búnaðarfélagsins. Ég veit ekki, hvort Búnaðarfélaginu er nokkur greiði ger með þeirri árás á það eða stjórn þess, sem felst í því, sem hann hefur sagt. Ég mun svo ekki svara orðum hans frekar. Staðhæfingar hans eru svo þekktar, að þær eru fæstar teknar alvarlega. Ég mun, eins og ég hef áður sagt, leggja fram þau gögn, sem að þessu máli lúta, og láta þau vera svar mitt.