17.12.1942
Sameinað þing: 10. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í D-deild Alþingistíðinda. (3900)

20. mál, kjarnafóður og síldarmjöl

Pétur Ottesen:

Aðeins örstutt mál, að gefnu tilefni frá hv. 1. flm. þessarar till. Mér virtist eins og hann vilja gefa í skyn, að það hefði verið að ástæðulausu, eða a.m.k. ástæðulitlu, að fyrrv. ríkisstj. flutti till. um að selja síldarmjölið á þessu hausti því verði, sem það var selt. Í öðru lagi virtist mér hv. flm. gefa í skyn, að bændur hefðu tekið þessu þannig, að þeir hefðu hlaupið frá heyskap sínum til annarra starfa og vanrækt að afla heyja í von um að geta fengið svo mikið af síldarmjöli sem þeir vildu fyrir þetta lága verð. Ég held, að fá eða engin dæmi séu til þess, að bændur hafi hlaupið frá heyskap eða slegið slöku við hann á síðast liðnu sumri, enda mætti segja, að þetta væri ekki hyggilega að ráði farið. Ég vildi því ekki hlusta á þessi ummæli hér án þess að mótmæla því, að þetta gæti verið tilfellið. Kannske hv. þm. þekki einhver dæmi? En ég vil ekki una því, að slíkur dómur sé felldur um bændastétt landsins yfirleitt.

Eins og hér hefur komið fram og reynslan hefur sýnt, varð miklu meiri eftirspurn eftir síldarmjöli nú á þessu hausti en áður hafði verið. Stjórn Búnaðarfélags Íslands, sem leitað var til af ríkisstj. um það, hvað hún áliti, að þyrfti á miklu af síldarmjöli að halda, svaraði því, eftir að hafa kynnt sér skýrslur undanfarinna ára, að 6500 smálestir mundu vera hámark þess, sem bændur þyrftu. Síldarmjölið skiptist öðruvísi milli bænda en venja er til, en það er ástæðulaust að ráðast á ríkisstj. fyrir það. Hún hafði ekki aðra tilhögun á úthlutuninni en þá, sem fylgt hefur verið, sem sagt, engar reglur settar fremur en áður hefur verið um það, hvað mikið hver mætti panta. Það er þá að snúa sér að Búnaðarfélagi Íslands um, en ekki til ríkisstj., að gera þurfi till. um, að settar séu reglur um úthlutun á síldarmjöli, til að tryggja, að það skiptist jafnt. Þar getur hv. 2. þm. N.-M. gengið fram fyrir skjöldu.

Ég held það sé þess vegna ákaflega óréttmætt að kveða upp áfellisdóm yfir ríkisstj. út af því, að þetta áætlaða síldarmjölsmagn hefur ekki reynzt nægilegt. Það er því síður ástæða til að áfella ríkisstj., þar sem hún gerði ráð fyrir enn meira til þessara þarfa en stjórn Búnaðarfélagsins taldi hámarksþörf. Það er alveg rétt, sem hv. þm. G.-K., þáv. landbrh., sagði, að ásakanir hv. flm. till. eru fyrst og fremst árás á stjórn Búnaðarfélags Íslands. Svo er annað atriði í þessu sambandi. Ef hv. 2. þm. N.-M. var á þeirri skoðun, að eftirspurnin mundi aukast svo mjög, ef síldarmjölið yrði selt við vægu verði, þá hefur hann ekki hreinan skjöld að hafa ekki lagt fram í tíma sínar tillögur í þessu efni. Sem kunnugum manni á þessu sviði stóð honum opið að gefa bendingu um, að þetta magn mundi ekki duga, eða í öðru lagi, að taka þyrfti upp aðrar reglur um úthlutun mjölsins. Hvorugt af þessu gerði hv. 2. þm. N.-M., sem honum hefði þó borið skylda til að gera samkv. stöðu sinni og starfi hjá Búnaðarfélagi Íslands, ef hann hefði gert sér gleggri hugmyndir um það en raun ber vitni, að þessa var þörf. Mér virðist því, að hv. 2. þm. N.-M., í þeirri aðstöðu, sem hann var, þegar ákvörðun um þetta var tekin, ætti sízt að vekja hér ádeilu út af því, að svona skyldi takast til. Honum hefði þá verið nær að rumska fyrr í þessu máli og gefa bendingar í tæka tíð til Búnaðarfélags Íslands, sem hefði getað orðið til þess, að betur hefði tekizt til í þessu máli heldur en verið hefur, nær heldur en nú að rísa upp með bægslagangi og reyna að skeyta skapi sínu á þeim ráðh., sem með þessi mál fór í ríkisstj. og sýndi bændum þá hugulsemi að bera fram till. um það í þinginu, að bændur fengju hverja tunnu af síldarmjöli fyrir verð, sem væri 20 kr. undir því verði, sem fékkst fyrir síldarmjölið á erlendum markaði. Þessi framkoma hv. 2. þm. N.-M. er ómakleg, af því að þessi hv. þm. er fulltrúi bændanna á hæstv. Alþ., þó að hann finni ástæðu til að þjóna sinni eigin lund með því að nota þetta tækifæri til þess að skeyta skapi sínu á fyrrv. hæstv. ríkisstj., sem hann e.t.v. þykist eiga einhverjar útistöður við út af því, sem er óskylt þessu máli.

Þetta vildi ég láta koma hér fram og það m.a. af því, að hér er verið að beina skeytum til stj. Búnaðarfélags Íslands. En náttúrlega er það vitanlegt, að stj. Búnaðarfélags Íslands verður að viðurkenna, að henni hefur yfirsézt í till. sínum hér. Hún gerði ekki ráð fyrir því — og hefur áður skrifað um það í þeim bréfum, sem farið hafa frá henni til ríkisstj. —, að það mundi verða svo miklu meiri eftirspurn eftir síldarmjöli nú heldur en áður hefur verið, eins og þó raun hefur á orðið. Og afleiðingin af því varð þá sú, að ekki var fyrir því séð, að settar yrðu reglur um úthlutun síldarmjölsins, svo að hún hefði orðið jafnari. Þannig hefur úthlutunin farið miður en skyldi.

Ég minnist þess, að stj. Búnaðarfélags Íslands kynnti sér nokkuð um það, hvernig ástatt var í haust um innflutning á maísmjöli eða innflutning á fóðurvörum frá útlöndum. Átti hún í þessu sambandi tal við þann mann, sem fyrir hönd ríkisstj. hefur eftirlit með því í stjórnarráðinu, hvernig hagnýtt er það skiprúm, sem til er til flutninga til landsins. Þessi maður er skrifstofustjóri í viðskmrn., Jón Guðmundsson. Hann tilkynnti stj. Búnaðarfélags Íslands um það, hve mikið magn búið væri að kaupa af síldarmjöli og hvað líkindi væru til, að flutt yrði til landsins af maísmjöli, og hvað líkindi væru til, að flutt yrði mikið til landsins fyrir áramót af þessum forða. Lét hann falla orð um það, að að sjálfsögðu yrði hraðað innflutningi maísmjölsins og hagnýtt skiprúm til þeirra flutninga, eftir því sem föng væru á, til þess að tryggja í tæka tíð innflutning á þessum fóðurvörum.

Ég vildi líka láta þetta koma hér fram í sambandi við það, að stj. Búnaðarfélags Íslands hafði líka leitazt við að kynna sér, hvernig ástatt væri í þessu efni, og lagði hún á það megináherzlu við ríkisstj., að hún beitti sér fyrir því, að sem fyrst og örugglegast væru gerðar ráðstafanir til þess, að þessar fóðurvörur yrðu fluttar til landsins.