04.01.1943
Sameinað þing: 12. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í D-deild Alþingistíðinda. (3906)

20. mál, kjarnafóður og síldarmjöl

Pétur Ottesen:

Ég skal verða við ósk hæstv. fors. að tala stutt. Það er lýðum ljóst um annan þeirra hv. þm., sem ég þarf að svara, í hvaða ástand hann kemst, þegar hann fer í slíkan habít, og get ég því látið niður falla að svara honum. Hv. þm. Mýr. (BÁ) segir hins vegar, að ég hafi ekki farið alveg rétt með það, sem ég sagði um þátt búnaðarfél. í þessu máli. Mér þykir að vísu leiðinlegt að þurfa að deila við samstarfsmann minn í stjórn félagsins, en get ekki kannazt við að hafa dregið félagið inn í málið á óviðurkvæmilegan hátt. Ég vil ekki skorast undan neinni ábyrgð, sem félagið ber með réttu, og skjóta henni yfir á aðra. Ríkisstj. óskaði álits þess um, hve mikið mjöl þyrfti. Svar mátti ekki dragast, því að hraða þurfti sölusamningum við stjórn Bandaríkjanna, sem vildu fá mjölið flutt til sín sem fyrst. Það hefði verið röng afstaða hjá ríkisstj., hefði hún ekki snúið sér beint til Búnaðarfélagsins til að fá svör og síðan byggt á þeim svörum. Þetta gerði hún. Það mátti einnig segja, að nokkurt öryggi væri í ákvörðun þeirri, sem útflutningsn. gerði, en þar er sölustjóri innlendra afurða S.LS., Jón Árnason. Á áliti beggja þessara aðila, n. og búnaðarfél., þóttist ríkisstj. geta byggt, nær sönnu gal hún ekki komizt. En þegar reynslan sýnir, að mjölið er ónóg, kemur það fram í bréfi búnaðarfél., að stj. þess lýsir beint yfir, að sér hafi skjátlazt, talar eins og hana hafi ekki órað fyrir því, sem varð, ella mundi hún frá upphafi hafa lagt til, að mjölið yrði skammtað.

Ég vil ekkert vera að bera blak af hv. þm. G.-K. (ÓTh), sízt þegar hann og hv. þm. N.--M. eru að kljást, heldur aðeins láta sannleikann koma fram. Hv. 2. þm. N.-M. talar um, að ég sé að bera róg á stjórn búnaðarfél. Ég aðeins ítreka orð hennar sjálfrar í bréfinu til ríkisstj. En það er von hann sjái ekkert nema fyrrv. ríkisstj., þykist þurfa að hefnast á henni fyrir, að hún setti annan mann í hans stað í kjötverðlagsnefnd, tók af honum feitt bein, og hann ætti ekki að bregða mönnum um, að þeir hafi asklok fyrir himin, hann sér sjálfur ekki út undan askloki sjálfs sín.

Að undanförnu hefur aldrei verið haft neitt eftirlit með útflutningi síldarmjöls þannig, að ríkisverksmiðjunum hafi t.d. verið fyrirskipað, hve mikið af mjölmagni sínu þær mættu láta til einstakra kaupenda. Aðferðin var alveg hin sama nú. Hv. þm. Mýr. talar um mjöl, sem skipshafnir hafi fengið. Það hefur lengi tíðkazt mjög, að þeir, sem stunda síldveiðar fyrir norðan, hafa fengið mjöl keypt. Þá er það, að ekki hafi verið sett tímatakmark fyrir pöntunum, t.d. 1. sept. Orsökin er, að þá hefði verið of seint að ákveða, hvað selja mætti úr landi. Það er því alveg rétt, sem ég sagði, að hér var ekkert brugðið frá eldri venju.

Eins og hv. þm. Mýr. segir, kom fram nokkur misskilningur um það magn, sem til væri í landinu. Eftir því, sem sá starfsmaður búnaðarfél. gefur upp, sem hefur þetta mál með höndum, eiga að fást 17–1800 smál. af fiskimjöli frá verksmiðjunum, og er þegar búið að afgreiða um 800 smál. og 200 tilbúnar til afhendingar fyrir jólin, en verið að vinna úr þeim beinum, sem eftir eru, og mun það ganga nokkuð greiðlega. Ef vertíð verður sæmileg, munu menn bráðlega eiga kost á mjöli úr nýjum beinum. Ætti því að mega bæta úr því bráðlega á þennan veg, sem rangt reyndist um fiskimjölið.

Ég skal nú ekki svara hv. 2. þm. N.-Múl. mikið gagnvart þeirri persónulegu ádrepu, sem hann gaf mér hér og hann hefur notað jólahelgina og nýárið til þess að skapa í huga sínum. Ég vil ekki taka neinn þátt í að skerða eða raska þeirri ánægju, sem hann hefur af því að hafa notað hátíðarnar svona vel til að koma þessu á framfæri. Ég held, að hlutur hans í þessu máli sé ekki of mikill, þó að hann sæti eftir með ánægjuna af því að hafa komið með þessar fullyrðingar, því að það er búið að gelda hann svo í þessu máli, að engum dýralækni, að Sigurði E. Hlíðar meðtöldum, mundi takast það betur, þegar um graðhest eða nautkálf væri að ræða.

Hann talaði um 3 sjóndeildarhringi. Það er nú víst alveg nýtt málblóm, sem honum hefur tekizt að klekja út. Hann talaði um 3 sjóndeildarhringi, sem sami maður gæti séð frá sama stað. Já, þetta er frumlegt, en það er víst það eina, sem hægt er að segja um það. Það var einu sinni sagt um skip, sem byggt var fyrir okkur, að þyngdarpunkturinn væri á skökkum stað í því. Ég held, að það sé vafamál, að þyngdarpunkturinn í heila hv. 2. þm. N.-M. sé á réttum stað, þegar hann fer að tala um 3 sjóndeildarhringi. Þetta er ekki til í málinu, en það getur vel verið, að hv. þm. hafi þetta úr lífeðlisfræðinni, sem hann hefur lesið, þegar hann var í Landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn. Ég skal ekki dæma um það, því að þau fræði kann hann betur en ég. Annars er það greinilegt, að það, sem kom þm. út úr jafnvægi og í þetta æsta skap, voru þau ummæli mín, að honum hafi sem starfsmanni borið að gera stjórn Búnaðarfélags Íslands aðvart, ef honum var ljóst, að hætta væri á ferðum, og sérstaklega þau ummæli mín, að þegar hann ræðst á fyrrv. ríkisstj. í þessu máli, sé hann að ráðast á stj. Búnaðarfélags Íslands, sem hefði átt að hafa góða þekkingu á því, hvað þörfum bænda leið, og þar sem hann vissi, að það átti að leita álits búnaðarfélagsins um þetta, hefði hann átt að láta til sin heyra og gefa stjórn Búnaðarfélags Íslands þær bendingar, sem hann taldi þörf á í sambandi við þetta mál. En þá tísti ekki í þessum hv. þm. Hann var að vísu á þingmálafundum um þetta leyti, en það tísti ekki í honum, og hann gaf ekkert upp um það, að nauðsynlegt væri að skammta mjölið til þess að tryggja, að menn fengju fullnægt þörfum sínum og úthlutunin gengi rétt yfir. Hann gaf engar upplýsingar og yfirleitt liggur fram á lappir sínar, þangað til nú, þegar allt er um götur gengið, þá kemur hann af því að hann þarf að ná sér niðri á fyrrv. ríkisstj., og rífur hér kjaft, eins og það er kallað, en athugar ekki, að hann er ekki að ráðast á ríkisstj., heldur stj. Búnaðarfélags Íslands, sem bar fram tillögur um, hve síldarmjölið þyrfti að vera mikið. Hann ber mér á brýn, að ég hafi borið róg á samstarfsmenn mína í stj. húnaðarfélagsins. Ég hef enga tilhneigingu til þess, því að milli okkar hefur verið gott samstarf um lausn þeirra mála, sem þurft hefur að leysa, en stjórn búnaðarfél. gat ekki séð fyrir það, sem skeði, og hann athugar það ekki, að þegar hann heldur, að hann sé að ráðast á ríkisstj., sem hann er reiður við fyrir það, að hún setti hann út úr kjötverðlagsn. — og beinið hrökk út úr honum — þá athugar hann ekki, að hann er að ráðast á stjórn Búnaðarfélags Íslands. Hann sá ekkert betur en stjórnin, en hver ætlast til þess af honum? Hans lítilmennska er bara því meiri að koma hér og vaða uppi með skammir og gleiðgosahátt, þegar hann sér, að hann er búinn að verða sér til skammar. Það er ekki heldur nema til skammar fyrir hann að tala um, að hann leggi aðaláherzluna á innflutning maísmjöls, en það kemur bara engum við, hvað hann leggur aðaláherzluna á, því að ríkisstj. er á verði um það mál. Ég vildi aðeins draga hans sjónarmið hér fram, úr því að hann var svo lítilþægur að ávarpa mig. Það var vitanlega það, sem hann reiddist mest, að finna, að hann hafði engan rétt til að setja sig hér á háan hest, þó að hvorki sé hægt að gera þær kröfur til hans eða stjórnar Búnaðarfélags Íslands að sjá nema mjög takmarkað inn í framtíðina.

Ég mun svo ekki, — sérstaklega vegna þess að forseti óskaði, að menn styttu mál sitt, orðlengja þetta frekar, meðan ekki kemur annað eða meira fram í sambandi við þetta mál en nú er.