10.02.1943
Efri deild: 52. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í B-deild Alþingistíðinda. (391)

119. mál, verðlag

Haraldur Guðmundason:

Eins og nál. ber með sér, þá tel ég rétt að samþ. þetta frv., sem hér liggur fyrir. Um brtt. á þskj. 378 verð ég þó að segja það, að mér virðist hún heldur til bóta. Það er eitt atriði í till., sem ég er ekki alveg víss um, að ég skilji rétt, en það er þar, sem segir: „Viðskiptaráð getur hvenær sem er fyrirskipað heildverzlunum eða öðrum, sem flytja inn og verzla með alls konar byggingarefni, veiðarfæri og aðrar nauðsynjavörur“. Mér skilst, að eins og greinin er orðuð, þá sé þetta bundið við það, að varan sé bæði flutt inn og verzlað með hana. Ég vil í þessu sambandi benda á það, hvort ekki væri rétt að láta þetta einnig ná til innlends iðnaðar, eða iðnaðarfyrirtækja, sem svipað stendur á um. Ég sé ekki betur en að till. sé til bóta og mun greiða atkv. með henni.

Ég vildi nota þetta tækifæri til þess að beina fyrirspurnum til hæstv. stj., einmitt á þessu stigi málsins. Ég vil fyrst taka það fram út af ummælum hæstv. frsm. um, að ríkisstj. og dómnefnd í verðlagsmálum hefði ómaklega verið borin þeim sökum að hafa brotið l. um verðfestinguna, að ég fæ ekki betur séð, eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, heldur en að l. hafi verið brotin. Ég skal játa, að það er rétt að minni hyggju, sem fram kemur í grg. hæstv. viðskmrh., að sú hækkun, sem orðið hefur á skömmtunarvörum, t.d. eins og á Hornafirði, verkar ekki á vísitöluna, þannig að þessi hækkun á vöruverðinu er á engan hátt fölsun á vísitölunni, eins og einhvers staðar hefur komið fram. En ég álít, að orðalag laganna sé svo skýlaust, að ekki verði um það deilt, að þessi ákvæði eru brotin með því að hækka vöruverð, eins og gert var á Hornafirði. Það stendur í 1., að ekki megi selja neina vöru hærra verði heldur en það var lægst þann 18. desember s.l. Þetta er alveg tvímælalaust að minni hyggju. Hitt er annað atriði, hvort ástæða var til þess að víkja frá þessu af sanngirnisástæðum. Þetta þótti mér rétt að taka fram vegna þeirra ummæla, sem hv. frsm. hafði. Ég er honum ósammála um þetta atriði. Annars get ég heldur ekki látið hjá líða að segja það, að mér virðist ákvæði 3. gr., fyrri málsgr. hennar, benda til þess, að stj. víðurkenni með því, að ekki hafi tekizt svo til um skipun viðskiptaráðs sem æskilegt hefði verið, því að þá væri að sjálfsögðu ekki ástæða til þess að ryðja úr ráðinu, þegar það á að fjalla um verðlag.

Ég hygg, að það atriði í þessum l., sem er meginbreyt. frá því, sem áður var, að einum föstum starfsmanni, verðlagsstjóra, verði falin framkvæmd verðlagseftirlitsins, sé til bóta. Það er í samræmi við þær till., sem ég hef áður staðið að, að viðskiptaráð noti það vald, sem það hefur, til þess að gera verðlagseftirlitið öruggara, og hygg ég, að það megi vænta nokkurs árangurs af þeirri breyt. Það mun líka vera full þörf á öruggu eftirliti, eins og hv. frsm. tók fram, sem átti að vera þeim málum kunnugur.

Ég vil nota þetta tækifæri til þess að spyrja hæstv. stj. um það, hverra tillagna megi frá henni vænta — og hvenær — um ráðstafanir tal þess að lækka dýrtíðina í landinu. Stj. hefur, ef þetta frv. verður að l., fengið samþykki þessara l. hér á Alþ., nákvæmlega eins og hún hefur óskað að fá þau afgr. Í fyrsta lagi verðfestingarl., sem hún fékk afgr. á einum degi rétt fyrir jólin, í öðru lagi lögin um viðskiptaráð, og í þriðja lagi, ef þetta frv. verður samþ., þessi nýju l. um verðlag í landinu. Nú verðum við að gæta þess, að þó að árangurinn af bættu verðlagseftirliti verði mjög verulegur, þá hlýtur að fara fjarri því, að stj. hafi náð því marki, sem hún hefur sett sér, þ.e.a.s. að fá lækkaðan framfærslukostnað vísitölunnar. — Ég vil því leyfa mér að mælast til þess, að stj. gæfi upplýsingar um það, hvenær mætti vænta tillagna hennar um lækkun á dýrtíðinni, ef hún sér sér fært að gefa Alþ. slíkar upplýsingar. Ég vil því frekar spyrja um þetta, þar sem enn eru felld inn í þetta frv. ákvæði um það að undanskilja öllu verðlagseftirliti allar íslenzkar framleiðsluvörur landbúnaðarins. En það er vitað og viðurkennt, að mestur hluti dýrtíðaraukningarinnar í landinu stafar af hækkuðu verðlagi landbúnaðarafurða. Það mun láta nærri, að af þeim 172 vísitölustigum, sem dýrtíðin hefur hækkað, nemi hækkun, sem af þessum vörum stafar, 100 stigum, en 72 stig munu stafa af hækkun á erlendri vöru, þó eru flutningsgjöld og hækkun á tollum talin þar með. Þetta eitt út Af fyrir sig hlýtur að sýna, svo að ekki verður á móti mælt, að það er gersamlega gagnslaust verk að ætla að lækka vísitöluna, svo að haldi komi, án þess að hreyfa við þessum vörutegundum. Það er því frekari ástæða til þess að spyrja um þetta nú, þar sem einmitt í þessu frv. er undanskilið verðlag á þessum vörutegundum. Í öðru lagi vegna þess, að þegar þetta frv. verður að ?., fellur niður sú verðbinding, sem í verðfestingarl. er, og um leið er fallið úr gildi það loforð, sem hæstv. landbrh. skýrði Alþ. frá, að verðlagsn. landbúnaðarafurða hefði gefið um það að halda verðinu óbreyttu. En samkv. þessu frv. eiga l. um dómnefnd í verðlagsmálum að falla úr gildi um leið og þessi l. verða staðfest.

Ég ræddi um það við umr. um verðfestingarl., fyrir jólin, hvort stj. hefði gert sér grein fyrir því, hve mikilli upphæð það mundi nema, sem greiða ætti úr ríkissjóði samkv. þál., sem samþ. var á sumarþinginu 1942. Landbrh. hefur upplýst, að hann gerði ráð fyrir því, að þessi upphæð mundi nema yfir 20 millj. kr. á framleiðsluvörur ársins 1942. Hins vegar hefur stj. ekkert látið uppi um það, hvort hún hyggst að framkvæma þessa þál. án þess að ráðfæra sig frekar við þingið, né heldur á hvern hátt. En mér virðist það augljóst mál, sé það ætlun stj. að greiða yfir 20 millj. króna í uppbætur á landbúnaðarafurðir, að þá verði, eftir því sem upplýst hefur verið um fjárhag ríkissjóðs, heldur þröngt um fé til þess að mæta öðrum þörfum. Í öðru lagi vildi ég leyfa mér að benda hæstv. stj. á það, að þessi þál. var samþ., áður en ákvörðun var tekin um haustverð á kjöti á s.l. hausti. Ég greiddi að sjálfsögðu atkv. með þeirri till., og ég hygg, að a.m.k. einhverjir af þm. hafi greitt þannig atkv. með það fyrir augum, að það gæti orðið til þess, að hægt yrði að ákveða verð á kjöti innanlands lægra heldur en ella mundi. En svo skeður það undarlega á s.l. hausti, að kjötverð er ákveðið miklu hærra heldur en nokkurn tíma áður og, að minni hyggju, hærra heldur en nokkur skynsamleg ástæða var til. Ég vildi mega skjóta því fram hér, að ég álít, að hæstv. stj. beri að taka það til athugunar, hvort ekki sé sjálfsagt að gera ráðstafanir til þess, að ekkert af kjöti verði flutt út. Með því meina ég það, að kjötverðið verði lækkað svo, að allt kjöt verði étið í landinu. Mér er sagt, að um 1500 tonn af kjöti eigi að flytja út og muni það verða selt fyrir lægra verð en það er selt fyrir innanlands, og sýnist mér þá frekar athugandi, hvort ekki væri hægt að selja þetta kjöt innanlands, heldur en að flytja það út og selja fyrir lægra verð en við sjálfir getum étið það fyrir hér heima. Ef kjötverðið yrði lækkað til þess að auka neyzluna, mætti að minni hyggju nota það fé, sem nú er greitt i uppbætur á kjöt og gærur, til þess að lækka framleiðslukostnað vísitölunnar fyrir landbúnaðinn, og mætti þá síðar ákveða, hvort ástæða væri til að greiða einhverjar uppbætur á kjöt, sem selt væri innanlands. Ég skal enn fremur benda á það, að mér virðast þær ráðstafanir, sem stj. hefur nú byrjað á til þess að lækka verðlagið, þ.e. að gefa eina kr. með hverju kjötkg — og flytja inn smjör —, benda til þess, að þetta komi til með að kosta ríkissjóð mikið fé. Í öðru lagi, að verðlagið á þessum vörum sé tiltölulega fjarri því, sem það ætti að vera, til þess að vísitalan lækki af þeim sökum. Í þessu sambandi Vildi ég mega spyrja hæstv. stj., hvort þessum greiðslum hefur verið lofað fyrir allt tímabilið eða hvort þær ná aðeins yfir óákveðinn tíma. (Viðskmrh.: Óákveðinn tíma). Það væri mjög ranglátt, að minni hyggju, ef þeim hætti væri haldið að greiða verðuppbætur á íslenzkar landbúnaðarafurðir, sem tryggðu sama verð fyrir þær og verið hefur, eftir að vísitalan færi að lækka, en tekjur Iaunamanna aftur á móti lækkuðu eftir vísitölunni. Ég vildi einnig í sambandi við afgreiðslu þál. um verðuppbætur á sumarþinginu geta þess, að sama þing samþykkti að selja bændum síldarmjöl við alveg sérstaklega lágu verði. Ég hygg, að það hafi vakað fyrir mönnum, þegar þetta var samþ., að tillit yrði tekið til þess verðlags, þegar verð væri ákveðið á landbúnaðarafurðum.

Mér væri mjög kært, ef hæstv. stj. sæi sér fært nú, áður en þetta mál er afgr., að gefa upplýsingar um það, hvenær vænta megi till. hennar um að lækka dýrtíðina og hverjar leiðir hún mundi helzt hugsa sér í því sambandi. Ég hef heyrt því fleygt, að stj. hefði í smíðum ný skattal., og ég heyrði á útvarpsræðu hæstv. viðskmrh., að hann gerði ráð fyrir því, að í þeim dýrtíðarráðstöfunum, sem stj. mundi leggja til, að hafðar yrðu, mundu koma fram till. um fjáröflun til þess að standast þann kostnað. Mér þætti einnig mjög æskilegt, ef hæstv. viðskmrh. upplýsti hér, hvað þeim málum liður og hvenær vænta mætti till. um það efni.